Atvinnu- mannlífs- og menningarsýning í Skagafirði 24. og 25. apríl
Í aðdraganda Sæluviku Skagfirðinga, nánar tiltekið helgina 24.-25 apríl nk., verður haldin viðamikil sýning í íþróttahúsinu á Sauðárkróki sem tileinkuð er atvinnulífi, menningu og mannlífi í Skagafirði.
Á sýningunni gefst fyrirtækjum, stofnunum, félagasamtökum, þjónustuveitendum og fleirum tækifæri til að kynna íbúum Skagafjarðar og gestum það sem í boði er í Skagafirði, hvort sem um er að ræða vöru, þjónustu eða annað. Sýnendum er heimilt að selja vörur eða gefa sýnishorn. Frítt verður inn á sýninguna fyrir gesti og kostnaði við þátttöku sýnenda stillt mjög í hóf. Samhliða sýningunni fer fram málþing um atvinnumál og nýsköpun, auk þess sem gefið verður út kynningarblað um Skagafjörð og athafna- og menningarlíf þar, sem ætlunin er að verði dreift um land allt. Þá verður komið fyrir sviði í íþróttahúsinu þar sem mönnum gefst tækifæri til að kynna ýmsa viðburði, t.d. atriði í Sæluvikudagskrá.
Skráning á sýninguna, málþingið og atriði hefur gengið vonum framar en sökum góðrar þátttöku hefur skráningarfrestur, sem upphaflega var til 31. mars, verið framlengdur. Hætr er að skrá sig í tölvupósti á netfangið sigfus@skagafjordur.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.