Ástin á tímum ömmu og afa
Í tilefni af nýútkominni bók um hjónin Bjarna Jónasson og Önnu Margréti Sigurjónsdóttur frá Blöndudalshólum býður höfundur bókarinnar, Anna Hinriksdóttir, til dagskrár í félagsheimilinu Húnaveri sunnudaginn 14. júní kl. 15.
Á dagskrá verður:
- Upplestur
- Sýning byggð á umfjöllunarefni bókarinnar
- Stuttmyndin Hjónin í Hólum - mynd af ömmu og afa
- Myndverk eftir Bjarna Hinriksson
- Kaffisala á vegum Kvenfélags Bólstaðarhlíðarsóknar
Bókin verður seld á tilboðsverði (3.000 kr. í stað 3.900), en ekki verður hægt að taka við greiðslukortum.
Allir hjartanlega velkomin!
Sýnishorn úr bókinni
Ástin á tímum ömmu og afa
– Bréf og dagbækur Bjarna Jónassonar – kennara, sveitarhöfðingja og samvinnumanns í Húnaþingi á öndverðri 20. öld –
Eftir Önnu Hinriksdóttir, gefin út af Háskólaútgáfunni
í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar
_____________________________________________________________________
„Anna! Viltu verða konan mín? Heldurðu að þú getir elskað mig? Jeg bið ekki einungis um hönd þína, jeg bið um hjarta þitt. Eigi jeg ekki enn hug þinn, vonast jeg eftir að geta unnið hann, því ástinni er ekkert ómáttugt.“
Bjarni Jónasson biðlaði fyrst bréfleiðis til Önnu Sigurjónsdóttur 4. febrúar 1920 og lét ekki hugfallast þó hann fengi afsvar í fyrstu. Í bókinni Ástin á tímum ömmu og afa er ástarsaga þeirra rakin í gegnum fjölda bréfa Bjarna til Önnu og dagbækur hans frá árunum 1908-1926.
Bjarni var kennari, fræðimaður, bóndi og sveitarhöfðingi í Bólstaðarhlíðarhreppi og Anna var húsmóðir á bújörð þeirra hjóna. Þau voru meðal helstu máttarstólpa í sinni heimasveit og áttu ríkan þátt í uppbyggingu samfélagsins í Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhlíðarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu drjúgan hluta tuttugustu aldar. Bjarni var um árabil hreppsnefndarmaður og hreppstjóri, sat ennfremur í kjörstjórn og verðlagsnefnd, var í stjórn Kaupfélags Húnvetninga og Sláturfélags Austur-Húnvetninga og deildarstjóri félaganna beggja um áratuga skeið. Hann var framfarasinni, sannfærður samvinnumaður og mikill áhugamaður um félagsmál og fræðistörf. Hann var driffjöður í stofnun ýmissa félaga sem eflt hafa menningarstarf og félagslega uppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu, má þar nefna Ungmennasamband Austur-Húnvetninga og Sögufélagið Húvetning. Þá tóku þau Anna og Bjarni mikinn þátt í sóknarstarfi í Bólstaðarhlíðarkirkju og uppbyggingu félagsheimilisins Húnavers. Anna var ennfremur meðal stofnfélaga kvenfélags sveitarinnar og vann alla tíð mikið starf í þágu félagsins.
Í bókinni er stiklað á stóru um lífshlaup Önnu og Bjarna en einkum dvalist við þriðja áratug tuttugustu aldar – fyrstu kynni, tilhugalíf og fyrstu hjúskaparár. Bréf Bjarna og dagbækur segja ekki aðeins sögu þeirra hjóna heldur draga einnig upp lifandi mynd af lífi alþýðufólks til sveita og íslensku samfélagi þess tíma. Þá segja bækurnar merka sögu af ferð sveitapilts til mennta upp úr aldamótunum 1900 en Bjarni hleypti ungur heimdraganum og sótti menntun til Kennaraskólans í Reykjavík á fyrstu starfsárum skólans. Ennfremur geyma dagbækurnar færslur um fræðslumál, líf farkennara og aðbúnað til kennslu í farskólum sveitanna, landbúnað, samgöngur, velferðarmál og margt fleira sem snýr að sögu lands og þjóðar. Bókin er ekki aðeins innlegg í fræðilega umfjöllun um menningu, sögu og líf einstaklinga á síðustu öld, hún er ennfremur fróðleg og skemmtileg lesning fyrir áhugafólk um íslenskt samfélag og samskipti fólks á fyrri tíð.
Ástin á tímum ömmu og afa var lokaverkefni höfundar, Önnu Hinriksdóttur, til M.A.-prófs í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Anna er dótturdóttir Bjarna Jónassonar og Önnu Margrétar Sigurjónsdóttur, dóttir Kolfinnu Bjarnadóttur, kennara í Reykjavík. Anna hefur unnið við miðlun af ýmsum toga – ritstörf, þýðingar, dagskrárgerð í sjónvarpi, vefmiðlun og hönnun sögusýninga – síðan hún lauk B.A.-námi í kvikmynda- og fjölmiðlafræði 1991.
Ástin á tímum ömmu og afa kom út 23. apríl sl. Verkið er gefið út af Háskólaútgáfunni í fræðibókaritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar sem ritstýrt er af sagnfræðingunum Davíð Ólafssyni, Má Jónssyni og Sigurði Gylfa Magnússyni.
Nánari upplýsingar:
Anna Hinriksdóttir
annahin@simnet.is, s: 864 0965
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.