Anna Jóna nýr leikskólastjóri

Fræðslunefnd Skagafjarðar hefur lagt til að Anna Jóna Guðmundsdóttir, leikskólakennari búsett á Akureyri, verði ráðinn leikskólastjóri yfir nýjum leikskóla við Árkíl.

Anna Jóna er alin upp á Sauðárkróki þangað sem foreldrar hennar fluttu þegar faðir hennar, Guðmundur Árnason, var ráðinn skipstjóri hjá endurvöktu útgerðafélagi Skagfirðinga. Guðmundur starfaði einnig sem hafnarvörður í tæp tuttugu ár. Hann er nú látinn. Móðir Önnu Jónu, Elín Lúðvíksdóttir, var lengstum heimavinnandi en starfaði hin síðari ár hjá Pósti og síma og síðar sem símadama hjá Kaupfélagi Skagfirðnga.
Aðspurð segir Anna Jóna að hið nýja verkefni leggist vel í sig. -Ég mun flytja á Krókinn ásamt 10 ára dóttur minni og heimilishundinum en eldri börnin tvö eru uppkomin. Ég hef ekki búið á Króknum síðan ég fór burt í framhaldsskóla en breytingarnar leggjast engu að síður vel í okkur mæðgur. Ég mun væntanlega klára mánuðinn á mínum fyrri vinnustað en hefjast síðan handa í hinu nýja starfi. Ég þarf að selja húsið mitt á Akureyri og leyfa dótturinni að klára hér veturinn en síðan mun ég hefjast handa við að leita mér að heppilegri eign til kaups á Sauðárkróki, segir Anna Jóna.

Alls sóttu fimm um hina nýju stöðu en eins og áður sagði lagði sveitastjórn til að Anna Jóna yrði ráðin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir