Almyrkvi Sigurjóns

 Sigurjón Þórðarson skrifar hér á Feykir.is vangaveltur sínar um stöðu Sjálfstæðisflokksins og meint mannréttindabrot, skuldasöfnun og óráðsíu flokksins í aðdraganda bankahrunsins. Svona rétt til að halda sannleikanum til haga verð ég að minna Sigurjón á þá staðreynd, að þegar alþjóðlega bankakreppan skall með fullum þunga á ríkjum hins vestræna heims, þá hafði Ísland mikla sérstöðu.

Sérstaða landsins fólst í því, að með styrkri stjórn á ríkisfjármálum undir forystu sjálfstæðismanna hafði tekist að greiða allar erlendar skuldir ríkissjóðs og vorum við á þann hátt betur í stakk búin til að takast á við hið alþjólega bankahrun.

Ég vil nota tækifærið í þessum fáu orðum til að óska Sigurtjóni til hamingju með formannskjörið í Frjálslynda flokknum nú á dögunum. Ég beið spenntur ásamt miklum þorra þjóðarinnar, þegar fáeinir tugir fólks sem enn teljast til Frjálslynda flokksins, kom saman til að kjósa sér nýja forystu. Og eins og hinn nýji formaður orðaði það í þakkarræðu sinni, þá þakkaði hann gríðarlega velgengni síns flokks þeim óvinsælu setefnumiðum sem hann hefði haldið fram alla tíð. Nú er það svo að ég bý á þeim stað í Skagafirði þar sem útvarps- og sjónvarpsskilyrði eru að jafnaði slæm, en í ljósi orða hins nýkjörna formanns hljótum við að álykta að í umhverfi hans ríki alger almyrkvi. Þar er ekkert samband við umheiminn og leiðinda fréttaflutningur fjölmiðla, svo sem af niðurstöðum skoðanakannana berast hinum nýkjörna formanni hreint ekki til eyrna.

Sigurjón hefur þó fengið pata af því að framundan eru sveitarstjórnarkosningar, því hann gerir framboðslista okkar sjálfstæðismanna að umtalsefni í greinarstúf sínum á þessum vettvangi. Ég er sammála honum að á lista Sjálfstæðisflokksins er afar „velmeinandi fólk“, fólk sem vill leggja samfélaginu lið og vinna að hagsmunamálum allra Skagfirðinga til lengri og skemmri tíma. Ég er stoltur af því að vera í þeirra hópi. Hinn nýkjörni formaður verður hins vegar að átta sig á þeirri staðreynd,  að sveitarstjórnarkosningar eru að mörgu leyti frábrugðnar kosningum til Alþingis. Málefni sveitarstjórnarkosninga eru nátengdari hagsmunum samfélagsins og hefðbundnir flokkadrættir fjórflokkanna víkja í æ ríkari mæli fyrir afstöðu kjósenda til frambjóðenda og einstakra mála, sem eru til umfjöllunar á hverjum tíma. Ef að Sigurjón og hans fólk ætlar að blanda sér af alvöru í þann slag nú á vordögum, ráðlegg ég honum að hlífa kjósendum í Skagafirði við klisjukenndum upphrópunum atvinnustjórnmálamanna í garð annarra flokka.

Lyftum umræðunni á hærra plan kæri frændi.

Jón Magnússon,

frambjóðandi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir