Af Jóni Péturssyni í Valadal og Stíganda frá Hofsstöðum

Teikning af Stíganda eftir Halldór Pétursson, sem Hestamannafélagið Léttfeti gaf Hestamannafélaginu Stíganda í afmælisgjöf 1975.
Teikning af Stíganda eftir Halldór Pétursson, sem Hestamannafélagið Léttfeti gaf Hestamannafélaginu Stíganda í afmælisgjöf 1975.

Hesturinn hefur fylgt manninum lengur en sögur ná til og verið notaðir til margra verka í gegnum tíðina. Ómissandi þóttu þeir sem vinnudýr og í hernaði gátu þeir ráðið úrslitum um hver færi með sigur af hólmi. Þeir voru notaðir sem reiðskjótar langt fram á síðustu öld en í dag eru þeir oftast haldnir fólki til afþreyingar og yndisauka þó ekki megi gleyma því að notkun þeirra í göngum og smalamennsku er enn gríðarlega mikilvæg. Þá er saga hestakeppna orðin ansi löng á Íslandi, allt frá skeiðkeppni Þóris dúfunefs og Arnar landshornaflakkara á Kili í árdaga landnáms, hestaati því sem sagt er frá í Íslendingasögum, til gæðingakeppna nútímans.

Stígandi var með hærri hestum með þrýstna bolbyggingu,
þurrholda og skarpholda, með langa og slétta óhnyklaða vöðva.
Mynd úr bókinni Hestar eftir Theodór Arnbjörnsson. 

Margir hestar hafa hlotið frægð og frama og sagðar af þeim ýmsar sögur. Einn þeirra er Stígandi, Jóns Péturssonar (1867-1946) sem ýmist er kenndur við Eyhildarholt, Nautabú eða Valadal, framúrskarandi gæðingur og stolt eiganda síns. Jón var fæddur í Valadal á Skörðum og ólst þar upp og á Álfgeirsvöllum í Lýtingsstaðahreppi. Seinna varð hann bóndi á Nautabúi í sömu sveit í mörg ár og síðar Eyhildarholti í Hegranesi.

Jón Pétursson á Stíganda.
Mynd úr Skagfirðingabók 7. hefti.

Í bók Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp, Horfnir góðhestar, er Stíganda lýst svo: 
„Stígandi var með hærri hestum með þrýstna bolbyggingu, þurrholda og skarpholda, með langa og slétta óhnyklaða vöðva. Hálsinn langur, reistur, fínn og framdreginn. Ennis- og yfirsvipur mjög fagur og göfugur. Ennið jafnhátt og breitt og dálítið hvelft. Augun stór, skær og grunnlitur þeirra móbrúnn, með skírum, ljósum teinum neðan við augasteinana, augnahárin fínleg og útstæð. Svipmót og augnabragð Stíganda bar ljósan vott um göfgi og mikið skap, og þegar hann var í vígahug og æstu skapi varð augnaráðið ægilega hörkulegt, og eins og gneistaði frá því einhver töfrakraftur. Hann var rauðgrár kastaður, en varð snemma hvítur sem nýfallinn snær, en með dökka hvarma, flipa og hófa.“

Hestamannafélagið Stígandi var stofnað á Hótel Varmahlíð síðasta vetrardag 1945 og fékk nafn gæðingsins. Samnefnd bók var gefin út 1995 í tilefni 50 ára afmælis félagsins en þar kemur fram að Stígandi hafi verið í eigu Gísla Björnssonar á Hofsstöðum, undan grárri hryssu frá þeim sama stað og gráum fola frá Víðinesi, fæddur árið 1911. Jón eignaðist svo hestinn 1917 og gaf honum nafn. Fimm vetra gamall var folinn taminn og þótti rólegur fyrsta árið en sjö vetra gamall var hann orðinn svo viljugur að hann var aðeins fyrir fullvana reiðmenn, eins og segir í bókinni.

„Stígandi var sjálfráður og þannig skapi farinn að hann vildi eiga íhlutunarrétt um hagi sína og athafnir. Þegar saman fór vilji hans og húsbóndans lagði hann fram meiri kosti en flestir hestar samtíða. Hann þuldi skeiðið af slíkri hörku og grimmd að þess þekktust ekki dæmi. Hann var óvenjuleg skepna. Stóð sem á nálum um leið og komið var í hnakkinn og augnaráðið harðnaði. Hann sópaði að sér athygli hvar sem hann fór. Margar sögur eru til af dirfsku og þolni Stíganda.“

Vísur Jóns voru margar hverjar landskunnar, sérstaklega hestavísurnar og voru ófáar um gæðinginn Stíganda:

Úr Stíganda togar taum
tökum handar læstum,
er á landi og í straum,
óstöðvandi næstum.

Tölt og brokkið tekur nett
trauðla í vatni sekkur.
Skeiðar bæði skarpt og létt
skilar þegar stekkur.

Pálmi Hannes Jónsson frá Nautabúi á Stíganda.
Myndin birtist með minningargrein í Morgunblaðinu
um Pálma 15. október 1992.

Í vísnahorni Halldórs Blöndal í Morgunblaðinu árið 2013 er sagt lítillega frá Stíganda og Jóni, hvar hestamennskan var honum í blóð borin „og margir góðhestar, einkum norðan- og austanlands, sem notið höfðu tamningar hans. Haft var við orð að Jóni hefði verið fyrir öllu að kynnast sem best innræti og skaplyndi þeirra hesta, sem hann tamdi. Sveinn Bjarman segir um hann í minningargrein að Jón hafi ekki verið svo efnum búinn að geta leyft sér þann munað að eiga góðhesta. Svo var um Stíganda. Hann var seldur í fjarlægt hérað en skilað aftur því hans urðu engin not vegna fjörs. Áður en hann fór kvað Jón:

Fyrst að ertu ferðbúinn,
fagri hjörtur stanga,
ég vil leggja lófa minn
á lendina þína og vanga.

Flest þér gæði falla í skaut,
fremdir hljóttu nýjar;
fram á þína fararbraut
fylgi þér óskir hlýjar.

Jón saknaði Stíganda:

Oft um kosti keðjusvans
kært er mér að hyggja,
því að milli mín og hans
margir þræðir liggja.

Teflt er loksins mjög í mát
mínum gleðivonum;
ég mun aldrei beislabát
betri stýra en honum.

Og við heimkomu Stíganda sagði Jón:

Vart þig senda vil á ný,
vinur út í bláinn;
þú skalt heimahögum í
hirða grænu stráin.

Ég mun reita saman senn
sitt af hverju tagi;
þinn er básinn auður enn,
askur og jata í lagi.“

Gæðingur úr göldum fola

Skiphóll er svipmikill hóll norðan Vindheimamela.
Hér er horft til austurs frá heimreiðinni að Saurbæ. Mynd: PF.

Í sjöunda bindi Skagfirðingabókar, frá árinu 1975, er þáttur sem ber nafnið Nautabúshjónin, eftir Guðmund Jósafatsson frá Brandsstöðum. Þar segir:
„Það, sem mörgum mun hæst í huga, þegar samferðamenn minnast Jóns á Nautabúi, er hestamaðurinn, tamningamaðurinn, - meistarinn á hestbaki. Hestamanninum lýsir Ásgeir Jónsson frá Gottorp á þessa leið í „Horfnir góðhestar" I. bindi: „Honum var mjög sýnt um að taka óvana og kæki af hestum, gera þá setta í taumum og viðburðafallega. Hann var töltkær og náði góðum tökum á að leita eftir því, örva það og prýða. Jón var sérstaklega laginn á að ríða hesta til skeiðs, en gerði aldrei háar byrjunarkröfur til þess, en farnaðist vel. Margir góðhestar komust í hendur Jóns til tamningar og lögunar. Hann var um langt skeið langáhrifamesti reiðmaður í Lýtingsstaðahreppi.“

Ásgeir bætir við: „. . . með honum hef ég lifað flestar gleðistundir á ferðalagi og á hestbaki.“ Þessari lýsingu Ásgeirs er því ekki varpað fram að óreyndu. Munu fáir, er til þekktu, efa dómvísi hans, þegar hestamennska átti hlut í. Því má ekki neita, að Jóni var oft álasað fyrir það, að hestamennskan tæki meira af honum frá búi og börnum en fullt hóf væri að. Það mál verður hvorki sótt né varið hér og þó bent á þetta: Enginn, sem nokkra hugmynd hefur um þá geysilegu vinnu, sem liggur að baki þess að gera gæðing úr göldum fola, - skörung úr skætingstetri, sem oftast reyndist honum leikur, - dregur í efa, að hann hafi lagt í það vinnu, sem oft hafi verið ærin þörf fyrir annars staðar að búi hans.

En því má ekki gleyma, að hvort tveggja var fyrir hendi: Í fyrsta lagi sótti hann til hestanna meiri hlut lífsnautnar sinnar og gleði en flestir samferðamanna hans, og í öðru lagi sótti hann til hestamennskunnar drýgri hlut af framfærslueyri síns fjölmenna heimilis en almennt var ljóst.“ (Bls. 15).

Guðmundur segir frá því að Jón hafi ekki misst sjónar á gæðingum, þótt hann hyrfi frá Nautabúi, enda „gnægð af sprettafæri“ í nágrenni Eyhildarholts. „Hann eignaðist sinn frægasta snilling - Stíganda frá Hofstöðum - eftir að hann kom að Holti. Hér verður ekki freistað að bregða upp mynd af fjöri hans og fimi. Það hefur Ásgeir frá Gottorp gert svo, að hér verður ekki um það bætt. Mun óhætt að fullyrða, að Stígandi hafi verið einn af allra stórbrotnustu snillingum meðal þeirra góðhesta, sem Skagafjörður hefur alið á þessari öld, og er þá ekki smáu til jafnað.

Víst er, að hann er þeirra frægastur, og hefur skagfirzk hestamennska heiðrað minningu hans á hugljúfan hátt. En um það verður trauðla deilt, að frægð sína og snilld átti Stígandi mest því að þakka, að hann naut handleiðslu Jóns og sona hans alla sína löngu ævi. Svo stórbrotin og einráð lund var engum öðrum sveigjanleg til fullrar hlýðni en meistara á hestbaki.“ (Bls. 21).

Það er óhætt að segja að Stígandi hafi gert garðinn frægan á kappreiðabrautum landsins en auk Jóns sat Pálmi, sonur hans (1902-1992), klárinn oft á skeiðkappreiðum hestamannafélagsins Fáks og víðar og hafði hestinn hjá sér í Reykjavík í tvö ár. Pálmi var fæddur á Nautabúi í Skagafirði og kenndi sig gjarnan við þann bæ. Stígandi varð ætíð meðal fremstu kappreiðahesta en árið 1923 náði hann sínum besta tíma í 250 metra skeiði 24,4 sekúndur. Til marks um góðan árangur Stíganda á kappreiðabrautinni fyrir tæpri öld síðan þá setti Bjarni Bjarnason nýtt heimsmet í 250m skeiði á LM á Hólum 2016. Fór hann sprettinn á 21,41 sekúndu á Heru frá Þóroddsstöðum.

Höfðingi heygður á Skiphól

Haugur Stíganda efst á Skiphól við Vindheimamela.
Í fjarska sést Hegranesið, þangað sem hesturinn var
keyptur 1917 er Jón Pétursson var bóndi í Eyhildarholti.
Mynd: PF.

Á alþingishátíðarári 1930 var efnt til kappreiða á Þingvöllum þar sem Kristján konungur tíundi var viðstaddur. Fyrstu verðlaun hlaut hesturinn Valur en eigandi hans var Axel Hallgrímsson. Í upprifjun Péturs Péturssonar í Morgunblaðinu 27. júní 2004 segir m.a. um skeiðið á Bolabási: „Að kappreiðunum loknum afhenti konungur Axel Hallgrímssyni, eiganda Vals, silfurbikar frá sjálfum sér til verðlauna. Var konungur mjög hrifinn af skeiðinu. Væri vel til fundið, að landið gæfi honum góðan skeiðhest til minja um komu hans hingað að þessu sinni. Er óvíst, að önnur gjöf yrði honum kærkomnari.“ Valur og Axel hlutu eitt þúsund krónur í verðlaun en Stígandi Jóns Péturssonar frá Eyhildarholti, sem fékk önnur verðlaun, 400 krónur.

Það er ekki að efa að Stígandi hafi verið frábær skeiðhestur og segir í afmælisritinu sem áður hefur verið getið um að hesturinn hafi haft mikil áhrif á Pálma líkt og vísan sem hann orti ber með sér:

Þegar Gráni gljána flaug
gleðin leysti dróma.
Ég var sæll frá innstu taug
út í fingurgóma.

Á minnisvarða haugsins í Skiphól stendur:
STÍGANDI REIÐHESTUR JÓNS PÉTURSSONAR
FRÁ VALADAL 1911 – 1931.

Í Hestinum okkar frá 1977 segir frá því að Jón hafi riðið Stíganda einhesta úr Reykjavík norður í Skagafjörð sumarið sem honum var fargað. Var hann þá farinn að láta á sjá, en samt í fullu fjöri. Augun hörð sem fyrr en neðri flipinn hékk máttlítill vegna átaka af keðjunni. Heimildir herma að Stígandi hafi verið felldur 21 vetra gamall á Skiphóli, sem er melhóll skammt utan Vindheimamela, og heygður þar. Á bautasteininum má hins vegar greina þessa áletrun: 
STÍGANDI REIÐHESTUR JÓNS PÉTURSSONAR FRÁ VALADAL 1911 – 1931. Samkvæmt því var hesturinn aðeins 20 vetra gamall er hann fékk stóru hvíldina.

Stígandastafurinn

Einn af merkisgripum Byggðasafns Skagfirðinga er göngustafur (BSk.1996:2-1882) feðganna Jóns og Pálma eins og segir á heimasíð þess, glaumbaer.is. „Á handfangið, sem er úr rostungstönn, er útskorin hestmynd. Á haldinu eru stafirnir JP og á gylltum málmhólk stendur: Jón Pálmason 1867, 3. júlí 1937. Frá dætrunum fimm og sonunum sjö. Aftan á handfangi stendur: 1937 og RJ, sem stendur fyrir listamanninn Ríkharð Jónsson, sem skar handfangið. Stafurinn var upphaflega í eigu Jóns Péturssonar (1867-1946) bónda á Nautabúi. Kona Jóns var Sólveig Eggertsdóttir (1869-1946). Stafinn fékk Jón á sjötugsafmælinu. Hestmyndin er af glæsihestinum og gæðingnum Stíganda sem ógleymanlegur öllum sem höfðu orðið á vegi hans.“

Samantekt @PF

---

Áður birst 35. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir