Að Glæsivöllum
Það er ekki með góðu móti hægt að halda því fram að fjármálastjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafi verið með ákjósanlegum hætti yfirstandandi kjörtímabil, þrátt fyrir að tekið sé tillit til erfiðra þjóðfélagsaðstæðna seinni hluta timabilsins.
Í eftirfarandi samanburði hef ég valið að miða við samantekin reikningsskil sveitarfélagsins, þ.e. aðalsjóð í A-hluta og fyrirtæki sveitarfélagsins, sem rekin eru í B-hluta, vegna þess að báðir hlutar eru á ábyrgð sveitarfélagsins og verða ekki af þeim sökum skildir frá rekstri þess.
Heildarskuldir sveitarfélagsins voru 3,16 milljarðar í árslok 2006. Samkvæmt fjárhagsáætlun yfirstandandi árs verða heildarskuldirnar rúmir 4,8 milljarðar, sem er rúmlega 52% skuldaaukning á tímabilinu. Til samanburðar eru áætlaðar heildartekjur sveitarfélagsins rúmir 3 milljarðar á árinu.
Á sama tímabili aukast rekstrartekjur sveitarfélagsins um tæp 30% ef miðað er við krónur á íbúa, úr 390 þús. kr á hvern íbúa sveitarfélagsins í 540 þúsund krónur á íbúa. Skuldirnar aukast hins vegar um 50% á sama tímabili, úr 775 þúsund krónum á íbúa í 1 milljón og 161 þúsund krónur á hvern einasta íbúa sveitarfélagsins.
Frekari skuldasöfnun leiðir ekki til annars en forræði á fjármálum sveitarfélagsins og ákvarðanataka flyst úr héraði.
Fyrir þessu ástandi eru eflaust margar ástæður. Kannski helst að núverandi meirihluti velur á vordögum 2007 að ráðast í nýbyggingu leikskóla í Sauðármýrum í stað fyrri ákvörðunar um að byggja við leikskólann Furukot, ákvörðun sem tekin var á forsendum leikskólans og foreldra á sínum tíma. Þessi, af því bara, stefnubreyting í úrlausn leikskólarýma veldur því að kostnaður verður a.m.k 300% hærri en ella, sem augljóslega skerðir möguleika sveitarfélagsins til framkvæmda og uppbyggingar á öðrum sviðum.
Það er eiginlega sama við hvað er miðað, eða hvaða tímabil er undir, á alla mælikvarða er um óviðunandi ástand að ræða í rekstri sveitarfélagsins undir forystu núverandi meirihluta.
Það er heldur ekki svo auðvelt að snúa ofan af þessu ástandi en við stöndum einfaldlega frammi fyrir því í dag. Möguleikar sveitarfélagsins á auknum skatttekjum eru takmarkaðir þar sem flestir skattstofnar eru komnir að efri mörkum. Sem dæmi eru fasteignagjöld af lítilli blokkaríbúð hér á Sauðárkróki um 35% hærri en á sambærilegri eign í Reykjavík.
Rekstur sveitarfélagsins og þjónusta verður því að snúast um forgangsröðun og hagsmuni allra íbúa sveitarfélagsins en ekki gæluverkefni eða hagsmuni einstakra aðila, sem birtast helst með reglubundnum hætti á fjögurra ára fresti.
Gísli Árnason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.