30 milljónir í fjölbreytt verkefni kvenna

Þann 26.mars síðastliðinn úthlutaði Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra 30. milljónum í styrki til atvinnumála kvenna.   55 styrkhafar hlutu styrki að þessu sinni en umsóknir voru 308 og hafa aldrei verið fleiri.  Að þessu sinni fengu fjórar konur á Norðurlandi vestra úthlutað í verkefni sín.

Guðbjörg Guðmundsdóttir á Sauðárkrók fékk styrk til þróunarkostnaðar við færanlega skjólveggi. Pálína Skarphéðinsdóttir fékk styrk til vöruþróunar á vörulínunni Gott frá Gili. María Sigurðardóttir, Hvammstanga, fékk styrk til markaðssetningar á Hlöðunni kaffihúsi og Sólveig Inga Friðriksdóttir Bólstaðarhlíð fékk styrk til viðskiptaáætlunar á heimareykingu, vöruþróun og markaðssetningu.  

Hæstu styrki að þessu sinni eða 2 milljónir hlutu Árla ehf til vöruþróunar og markaðssetningar á morgunkorni og KOLKA – til vöruþróunar og markaðssetningar á vörum sínum en fyrirtækið sérhæfir sig í viðskiptum tengdum kolefnisráðgjöf.

11 styrkhafar fengu 1 milljón króna í styrk og má þar nefna verkefni eins og hönnun á tangó fatnaði, aðgengismál fyrir fatlaða, fyrirtæki í tjónavörnum, viðgerðir á hljóðfærum, þróun á birkisafa og ljósmæðraþjónusta svo eitthvað sé nefnt.

„Verkefnin sem hlutu styrki og einnig sá mikli fjöldi umsókna sem barst sýnir hve mikill kraftur er meðal kvenna til atvinnusköpunar, mikil hugmyndaauðgi og frumkvæði sem rétt er og skylt að virkja í þágu samfélagsins“ sagði ráðherra, við afhendingu styrkjanna. „Við göngum í gegnum miklar efnahagsþrengingar og því er svo jákvætt og uppbyggilegt að sjá hverju einstaklingar geta áorkað með stuðningi og hvatningu. Styrkir til atvinnumála kvenna hafa verið veittir frá árinu 1991 og hluti af verkefninu er að veita konum sem hyggja á atvinnurekstur ráðgjöf og fræðslu sem ég veit að hefur verið mörgum ómetanlegur stuðningur.“

Auk úthlutunarinnar fjallaði Rúna Magnúsdóttir, stofnandi tengslanetssíðunnar connected-women.com  um markmiðasetningu og mikilvægi tengslaneta. Benti Rúna  konum m.a. á að þegar við vitum hvert við erum að fara, þ.e. þegar skýr framtíðarsýn er fyrir hendi,  er einfaldara að sjá svart á hvítu hvaða fólk við þurfum að tengja okkur við til að ná tilætluðum árangri. „Mikilvægt er að kortleggja sitt eigið tengslanet fyrst“ segir Rúna „og síðan að  fylla uppí götin út frá framtíðarsýn með víðsýni, áræðni og skýrum fókus á endamarkmið“.

Að sögn starfsmanns Vinnumálastofnunar,  Ásdísar Guðmundsdóttur, eru styrkir sem þessir ómetanlegur stuðningur en ekki síður hvatning til góðra verka. „ Í þarfagreiningu sem gerð var í fyrra meðal styrkþega áranna 2008 og 2009 kom í ljós að margar hefðu ekki haldið áfram verkefni sínu ef styrkur hefði ekki fengist. Það sem skipti þó jafnmiklu máli var hvatningin og viðurkenningin sem felst í því að fá styrk.  Við viljum halda áfram að sinna þessum hópi frumkvöðla og í farvatninu er að bjóða upp á örnámskeið í samvinnu við Impru og nánari útfærsla á ráðgjöf fyrir konur en í þarfagreiningunni kom í ljós að þær telja ráðgjöf er mikilvægan þátt í framgangi verkefna þeirra“.

Nánari upplýsingar um styrkina og verkefnið má finna á heimasíðunni www.atvinnumalkvenna.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir