Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins er einn fjórði Húnvetningur
Sjálfstæðismenn halda nú sinn 45. landsfund í Laugardalshöllinni í Reykjavík og þar lauk í hádeginu formannskjöri flokksins. Guðrún Hafsteinsdóttir er nýr formaður Sjálfstæðisflokksins en hún hafði betur í hnífjafnri kosningu gegn Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Aðeins munaði 19 atkvæðum á þeim stöllum en alls skiluðu 1.858 manns atkvæðaseðli í kosningunni.
„Hlaut Guðrún 931 atkvæði eða 50,11 prósent. Það var Birgir Ármannsson sem kynnti úrslitin og urðu mikil fagnaðarlæti í salnum. Áslaug Arna hlaut 912 atkvæði eða 49,09 prósent og fékk hún einnig mikið lófatak frá stappfullri Laugardalshöllinni. Auðir og ógildir seðlar voru fjórir og þá hlutu aðrir fimmtán atkvæði.
Guðrún Hafsteinsdóttir er því réttkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, sá tíundi í sögunni og fyrsta konan, en hún tekur við embættinu af Bjarna Benediktssyni sem kveður nú sem formaður eftir 16 ára valdatíð.
Guðrún Hafsteinsdóttir er 55 ára gamall Hvergerðingur sem hefur stýrt Kjörís um árabil en hún komst á þing sem fyrsti þingmaður suðurkjördæmis í Alþingiskosningunum 2021 og sat hluta af kjörtímabilinu sem dómsmálaráðherra,“ segir í frétt á vef Sjálfstæðisflokksins. Ef Feyki skjátlast ekki þá er hún fyrsti formaður flokksins sem kemur af landsbyggðinni, þó reyndar Davíð Oddsson hafi ungur alið manninn á Selfossi.
Guðrún rekur ættir sínar í Norðurárdal í Austur-Húnavatnssýslu en amma hennar, Guðrún Margrét Albertsdóttir, ólst upp á Neðstabæ áður en hún flutti suður til að gerast ráðskona í Rangárvallasýslu. Þá má líka geta þess að Guðrún er systir Aldísar, sveitarstjóra í Bláskógabyggð, sem er gift Skagfirðingnum Lárusi Inga Friðfinns Bjarnasonar sem er sonur Dísu og Bjarna Har.
https://is.wikipedia.org/wiki/Norðurárdalur_(Húnaþingi)#/media/Mynd:Norðurárdalur_and_the_farm_Neðstibær_on_the_left_-_Mapillary_(cropped).jpg
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.