Dagur leikskólans! | Ásbjörg Valgarðsdóttir skrifar
Rauð viðvörun er í dag á Degi leikskólans og allt skólahald liggur niðri í Skagafirði. Leikskólinn minn er lokaður og hefur reyndar verið lítið um að börn hafi fengið að koma þangað síðustu daga vegna verkfalls. Vikurnar fyrir verkfall þurftum við líka að loka deildum og senda börn heim vegna manneklu. Þá þurftu kennarar og annað starfsfólk að hlaupa hraðar til að láta daginn ganga upp. Er það það sem við viljum? Náum við að vinna okkar faglega starf þannig? Náum við að horfa á þarfir hvers og eins og grípa þá sem þurfa meiri aðstoð? Nei, nei það getum við ekki og það er ekki það sem við viljum.
Við viljum geta hlúð að „börnunum okkar“ í leikskólanum og sýnt hverju barni athygli. Í leikskólanum vinnum við fjölbreytt starf sem veitir börnum þá kennslu sem þau þurfa á fyrsta skólastiginu, grunninn fyrir áframhaldandi nám og kennslu. Að vinna í leikskóla með það dýrmætasta sem foreldrar eiga er ábyrgðarmikið starf. Að mínu mati er þetta skemmtilegasta starf sem ég hef unnið enda búin að vinna við það í 30 ár. Að sjá allar framfarirnar er mjög gefandi, sumar bara hænuskref sem við fögnum eins og við værum Íslandsmeistarar enda misjafnt hversu mikið hver þarf að hafa fyrir náminu sínu.
Nú í janúar vorum við að vinna með Krummaþema eftir að við sáum krumma úti að stríða mávum. Við notuðum tækifærið til að ræða hvernig allir eiga að vera góðir hvor við annan og hjálpast að. Einnig settum við upp þuluna „Krumminn á skjánum“ myndrænt á vegginn. Einn morguninn stóðu fjórir nemendur fyrir framan myndina og fóru með þuluna og þetta eru tveggja ára börn! Þarna fylltist kennarahjartað af stolti og gleði. Í allri manneklunni og á hlaupunum þá náðum við þessu. Já, það er allur tilfinningaskalinn sem flýgur í gegnum mann núna.
Á undanförnum vikum hef ég farið í gegnum allt tilfinningahjólið; reiði, depurð, skömm, spennu, hræðslu og öryggi en samt er það sem veitir mér mesta gleði að vinna með börnunum og fær mig oftast til að gleyma öllum erfiðleikum. Síðustu daga hefur mér þó liðið þannig að þetta sé allt martröð og ég vakni fljótlega en það er alls ekki svo. Þessar kærur á okkur kennara frá SÍS og foreldrum gera lífið frekar grátt og þetta er blákaldur veruleiki. Ég myndi frekar vilja að þetta fólk myndi standa með okkur og styðja. Best væri að SNS myndi setjast við samningaborðið og semja við okkar frábæru viðræðunefnd sem fer fyrir okkur í KÍ. Að vinna í leikskóla er stórt og göfugt starf. Ein góð kona sagði að Ísland væri „stórasta land í heimi“. „Kennarastarfið er stórasta starf í heimi.“ Hvernig væri að meta það að verðleikum? Að vinna í leikskóla er skemmtilegasta starf í heimi en því fylgir líka mikil ábyrgð. Við erum tilbúin að axla hana en við þurfum stuðning til þess.
Til hamingju með dag leikskólans - mikið væri gaman að samningar næðust á þessum merka degi
Áfram kennarar!!!
Höfundur er leikskólakennari, í skólamálanefnd FL og formaður 5.deildar Félags leikskólakennara
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.