Skandall að Euróvísa fór ekki út / DANA ÝR
Tón-lystar-maðurinn að þessu sinni er Dana Ýr Antonsdóttir sem býr ásamt fjölskyldu sinni í þeim ágæta bæ, Kópavogi. Dana Ýr er fædd 1988, aðalhljóðfærið hennar er gítar en hún spilar aðeins á píanó. - Ég myndi klárlega spila meira ef ég ætti svoleiðis dýrgrip. Ef einhver liggur á einu slíku og vantar að losna við það, má sá og hinn sami endilega láta mig vita.
Helstu tónlistarafrek: Klárlega þegar ég söng í Skaffó með Sense um árið…. nei djók! Ég var einu sinni bókuð í afmæli og engin önnur en Eivör hitaði upp fyrir mig (ég kannski tek það fram að hún var á hraðferð og varð að fá að vera á undan). En ætli það hafi ekki verið toppurinn þegar ég var framlag Íslands á norænni vísnahátíð í Stokkhólmi. Ég var 19 ára og fannst það ansi mikill heiður.
Uppáhalds tónlistartímabil? Þetta er nú nánast ómögulegt að segja til um. Það má alltaf finna eitthvað gott og annað misgott. Þannig að við þessari spurningu segi ég pass.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Nýji diskurinn með Ylju er í miklu uppáhaldi þessa dagana.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var mjög mikið hlustað á tónlist á mínu heimili og er enn gert. Mest var hlustað á íslensk dægurlög, Bubba, Megas og Johnny Cash. Mest voru það þó gömul íslensk dægurlög og mikið sungið með.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Vá ég vildi óska að ég væri ein af þeim sem myndi eftir því, en svo er ekki. En fyrsta sterka minningin er þegar ég sat á Frostastöðum, þá líklega 5 eða 6 ára, hjá Afa Grétari og ömmu Jónu og hlustaði á Karlakórinn Heimi, þá sérstaklega Hraustir menn aftur og aftur og aftur og dreymdi um að einn daginn myndi ég syngja í Heimi. Það rætist nú líklega seint en hver veit nema einn daginn fengi maður að standa á sama sviði og þeir.
Hvaða græjur varstu þá með? Þá var ég nú bara með geislaspilara, en að sjálfsögðu átti ég einu sinni rosa flott vasadiskó. En ekki hvað?
Hvað syngur þú helst í sturtunni? Adele. Hana syng ég þegar engin heyrir né sér.
Bítlarnir eða Rolling Stones? Bítlarnir.
Uppáhalds Júróvisjónlagið? Besta íslenska júrólagið er Eurovísa með Botnleðju. Skandall að það fór ekki út.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Það er klárlega Einn dans við mig með Hemma Gunn. Það klikkar aldrei.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Manninn minn vera að græja morgunnmat. En það var líklega ekki það sem þú varst að meina.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég myndi vilja fara á Ullevi í Gautaborg, til að nýta ferðina og komast á heimaslóðir. Adele yrði fyrir valinu. Og auðvitað tæki ég betri helminginn með mér, hann Elvar Örn.
Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Ég sjálf :o)
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Það er án alls efa Jagged Little Pill með Alanis Morissette. Ef þið eigið hana ekki, þá er kominn tími til að eignast hana!
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? (lag/flytjandi)
You Oughta Know – Alanis Morrisette
Hedonism – Skunk Anansie
Give Me One Reason - Trace Chapman
Take It All – Adele
17 år – Veronica Maggio
People Get Ready – Eva Cassidy
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.