Mest hlustaði ég á Glám og Skrám / SVERRIR BERGMANN
Nýlega kom út diskur Sverris Bergmann, Fallið lauf, sem hlotið hefur einróma lof gagnrýnenda, hugljúf plata sem vel þess virði er að tékka á. Titillag plötunnar ber einnig nafnið Fallið lauf og er eini textinn sem Sverrir samdi sjálfur en það var skömmu eftir jarðarför nafna hans og afa, Sverris Svavarssonar á Sauðárkróki. Lagahöfundar eru ýmsir bæði tökulög og frumsamin. Textahöfundar eru auk Sverris, Sævar Sigurgeirsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Hallgrímur Oddsson, Sverrir Norland og Skúli Mennski. Sverrir segir að víða hafi verið leitað að góðum textum og ekki hætt fyrr en allir voru sáttir.
Sverrir Bergmann Magnússon ólst upp í góðu yfirlæti í Drekahlíðinni á Sauðárkróki, fæddur árið 1980. Hann segist hafa byrjað að glamra eitthvað á píanó í tónlistarskólanum á Króknum en það hefði dugði skammt. Í seinni tíð hefur Sverrir rifið frekar í kassagítarinn og glamrað á hann.
Helstu tónlistarafrek? Ætli það hafi ekki verið á Þjóðhátíð í ár þegar að ég söng Þjóðhátíðarlagið og öll brekkan í Herjólfsdal stóð á fætur.
Uppáhalds tónlistartímabil? Ég myndi segja 8. áratugurinn (1970-1980) Þegar að snillingar á borð við Bill Withers og Al Green létu vel í sér heyra.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég er alveg sjúkur í þessa gömlu góðu "soulfull" tónlist. Menn eins og Bill Withers, Al Green, Marvin Gaye og Wilson Pickett svíkja seint.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var allskonar. Pabbi var óður í Queen og svo voru einhverjir Platters diskar sem ég hlustaði endalaust á.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? -Mig minnir að það hafi verið Bad með Michael Jackson. Keypti vínil plötuna. Mest hlustaði ég samt á Glám og Skrá sem barn, enda alveg dúndur lög í gangi þar.
Hvaða græjur varstu þá með?
Bara kassettutæki og plötuspilara.
Hvað syngur þú helst í sturtunni? Bara eitthvað nógu hátt, nánast aldrei það sama.
Wham! eða Duran? Gæti eiginlega ekki verið meira sama. Náði einhvernveginn alveg að sniðganga þetta tímabil þannig að ég hef enga skoðun hér, sorry ;)
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -Að henda nokkrum góðum Motown stuðlögum á fóninn getur verið góð skemmtun. Ef fólk fílar það ekki, þá er bara að rífa fram kassagítarinn og fá fólk til að syngja.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnu-dagsmorgni, hvað viltu helst heyra? -Jack Johnson - In between dreams. Alveg yndisleg plata sem er ljúf og þæginleg.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Ég væri til í að sjá Rolling Stones í Dubai eða einhverju þeim mun dýrara, nýta tækifærið ef maður fengi þetta frítt :) Ég tæki svo bara sem flesta með, enda yrði þetta gott partý.
Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? -Bill Withers. Illa flottur en samt svo "chillaður" (afsakið orðbragðið)
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Jeff Buckley - Grace
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.