„Ég dansaði og söng fyrir hlé, svaf svo seinni partinn“ | GUÐRÚN HELGA

Guðrún Helga að syngja. AÐSEND MYND
Guðrún Helga að syngja. AÐSEND MYND

Áfram heldur Feykir að banka upp á og biðja fólk um að svara Tón-lystinni. Nú er það Guðrún Helga Jónsdóttir sem býr í Miðhúsum í Akrahreppi hinum forna sem kemur til dyra. Hún segist vera af hinum óviðjafnanlega 1975 árgangi og hafa alist upp við dásamlegar aðstæður í Miðhúsum. „Pabbi, Jón Stefán Gíslason, er borinn þar og barnfæddur en mamma, Sigríður Garðarsdóttir, er ættuð úr Neðra Ási,“ segir Guðrún Helga.

„Þarna hafði ég frjálst aðgengi að ömmu og afa upp frá. Þar átti ég góða vini sem ég leit mikið upp til. Amma alltaf hæglát en ótrúlega brosmild og björt manneskja og afi algjör gaur sem kenndi mér ýmislegt í orðaskaki og töffaraskap. Alls staðar var tónlist í kringum mig. Útvarpið var alltaf á og allir syngjandi eða hummandi. Mamma söng alltaf fyrir okkur þegar við vorum lítil og hefur alltaf haft miklar mætur á tónlist. Bæði afi og pabbi hafa sungið bassa og þar lærði ég að radda, sérstaklega hjá pabba. Hann söng alltaf sína rödd með lögunum. Bjó hana til ef hún var ekki til staðar enda með mikla tónlistargáfu frá náttúrunnar hendi og ég drakk þetta allt í mig.“

Guðrún Helga segist hafa lært að spila á píanó hjá Stefáni Gíslasyni, föðurbróður sínum. „Og bý að því alla ævi að hafa fengið hans faglegu leiðsögn, þá og alla tíð í söngnum. Það voru gæðastundir og góð ráð sem ég mun alltaf geyma.“

„Ég söng víst áður en ég byrjaði að tala, söng alltaf mikið,“ segir Guðrún Helga þegar hún er spurð út í helstu afrekin á tónlistarsviðinu. „En fyrsta skiptið sem ég söng ein var mitt helsta tónlistarafrek. Því þá fann ég hvað söngurinn er mér og mínu sálarlífi mikilvægur. Síðar meir hef ég átt alls konar persónuleg tónlistarafrek í erfiðum lögum, erfiðum athöfnum og á erfiðum stundum. Ég tók upp plötu með Pétri Hjaltested og Þorvaldi Bjarna sem er kannski samt áþreifanlegasta tónlistarafrekið. Þarna fékk ég tækifæri til að vinna með alveg ótrúlega faglegu tónlistarfólki bæði hljóðfæraleikurum og bakröddum. Ég gerði þessa plötu fyrst og fremst fyrir mig og svo hafa einhverjir haft gaman af henni líka, sem er bara skemmtilegur bónus.

Hvað er á döfinni? Við höfum verið að syngja saman þrjár; ég, Kolbrún Grétarsdóttir og Íris Olga. Við erum að vinna í dagskrá, safna lögum og syngja okkur saman. Höfum verið að syngja saman markvisst síðan síðasta sumar og þetta er alveg mergjaður félagsskapur. Þær eru báðar alveg einstakar og heiður að vera með þeim í þessu. Einhverntíma á ég síðan eftir að hafa eina feita tónleika, ég er með alls konar hugmyndir en ekki eins mikinn tíma til að framkvæma.“ Snúum okkur nú að spurningalistanum.

Hvaða lag varstu að hlusta á?Never Gonna Not Dance Again með Pink.“

Uppáhalds tónlistartímabil? „Ég á ekkert eitt uppáhalds, er svo mikil alæta á tónlist, en sísta tímabilið væri kannski diskó, þar er bara eitt og eitt lag sem ég fíla.“

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Teddy Swims er að syngja einhverja blöndu af alls konar stefnum og ég er mjög hrifin af þessu, miklar tilfinningar í lögunum og textunum. Flottur söngvari með mikla sál, er með lög eins og The Door og Lose Control.

Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna?Let it Burn með Shaboozey er nýjast inn og Morgenstern með Rammstein til að koma mér í gír. Undanfarið ár er ég búin að hlusta mjög mikið á klassískt rokk, Ninu Simon, Arethu Franklin, og tónlist frá 1960-1970. Þar fann ég eitt alveg undurfallegt lag sem heitir The Carnival is Over, með hljómsveitinni The Seekers það er líka í miklu uppáhaldi.“

Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? „Ég á mjög mikið af fyrirmyndum sem eru alveg fáránlega góðar. Ég hef alltaf haft mikið dálæti á Cranberries og hlustaði á þau alveg í strimla. Ég mundi vilja syngja Dreams með Dolores O´Riordan. Þegar ég heyrði þetta lag fyrst, féll ég alveg fyrir henni og þessari hljómsveit. Hún er geggjuð týpa og tónlistin heillaði mig. Svolítið rokkað en tilfinningaríkt, ég hlusta á þau reglulega. Síðan hefur Andrea Gylfadóttir alltaf átt sérstakan sess en við Kolla Grétars sungum Todmobile lögin stanslaust í röddum þegar við vorum ungar. Þessi lög eru bara svo sérlega vel samin og dásamleg t.d. Stopp, Næturlagið og Sameiginlegt. Með Andreu mundi ég vilja syngja Þeir sem Guðirnir elska. Þegar ég missti Stefán Jökul bróðir minn var þetta lag eins og talað úr mínu hjarta, ég er svo þakklát fyrir þetta lag.“

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Mamma og pabbi hlustuðu á alls konar. Plöturnar sem voru mest spilaðar voru samt Abba, Fats Domino, Traveling Wilburys, Mark Knofler og Ched Atkins, Eló og plötur þar sem klassísk tónlist var poppuð upp, t.d. Hooked on Classics og svo auðvitað Karlakórinn Heimir.“

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Ég safnaði mér til að kaupa Betra en nokkuð annað með Todmobile, sem er ennþá ein af mínum uppáhalds plötum, síðan keypti ég plöturnar úr Dirty Dancing myndunum og hlustaði mikið á þær.“

Hvaða græjur notaðirðu þá? „Ég fékk fyrsta segulbandstækið fyrir tvær spólur þegar ég var tíu eða tólf ára og svo aftur nokkrum árum seinna mjög góða græju fyrir eina spólu en miklum bassa – sem mér líkaði afar vel. Það var plötuspilari í stofunni en ekki hægt að taka upp svo ég gekk í fermingargræjur bróður míns, með eða án leyfis, og alla hans tónlist. Garðar Páll er fimm árum eldri en ég svo hann var farinn að vinna og kaupa sér plötur og átti mjög myndarlegt safn sem ég gekk í, sérstaklega þegar hann var ekki heima. Þar hlustaði ég á Van Halen, Whitesnake, Big Country, Bruce Springsteen, Simple Minds og fleiri.“

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „Mamma fór með mig á mynd um Abba á Sæluviku í Bifröst þegar ég var eins árs – hún fékk ekki pössun. Ég dansaði og söng fyrir hlé, svaf svo seinni partinn. Svo man ég að mér fannst Katla María og Litli Mexíkaninn mjög skemmtilegt en mest tengi ég Komdu niður með Önnu Siggu við ömmu mína Guðrúnu, við sungum það oft saman með útvarpinu.“

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? „Ég man ekki eftir neinu í svipinn, en ofspiluð lög verða þreytandi.“

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Sennilega mundi ég byrja á House tónlist, t.d. Afraid to Feel með LF System, eða Sorry með Madonnu. Það færi svolítið eftir hópnum. Gæti alveg eins orðið eitthvað miklu eldra eins og Meatloaf eða Abba.“

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra?Raising Sand með Robert Plant og Alison Krauss eða Home Again með Michael Kiwanuka, plata sem mér var bent á nýlega. Annars er svo margt gott til.“

Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið? Here Comes the Sun og Blackbird, það fyrra hefur alltaf verið í uppáhaldi.“

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Ég mundi fara að sjá Pink eða Coldplay, sennilega í Evrópu. Mundi taka fjölskylduna með mér, þar eru allir tónlistaráhugafólk. Þau eru búin að fara á nokkra tónleika krakkarnir mínir.“

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? „Þá voru Miðgarðsböll stór partur af tilverunni þannig að það var mest hlustað á Stjórnina, Nýdönsk og Sálina. Svo fullt af spólum með uppteknu efni úr útvarpinu.“

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig)? „Sennilega Andrea Gylfadóttir – hún er alveg hreint ótrúleg.“

Hvaða plata hefur skipt mestu máli í þínu lífi og hvers vegna? „Ég mundi segja Betra en nokkuð annað með Todmobile, því þau hafa verið stór hluti af mér alla tíð. Síðan er það Dýrð í dauðaþögn með Ásgeiri Trausta. Sú plata er einstaklega vel gerð og áheyrileg. Ég hlustaði á þessa plötu í gegnum veikindi bróður míns.“

- - - - - 

Sjö mest spiluðu lögin í síma Guðrúnar Helgu:

Feet Don´t Fail Me Now /JOY CROOKES
Wolf / FIRST AID KIT
Sunflower / POST MALONE
Bloody Mary / LADY GAGA
Electric Love / BØRNS
Walking After You / FOO FIGHTERS
Glorie / VINNI

- - - - - -+
Birtist fyrst í 5. tölublaði Feykis 2024

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir