Það má reikna með dramatík í kvöld
Síðasti deildarleikurinn í Bónus deild karla er í kvöld og úrslitakeppnin handan við hornið! Tindstoll tekur á móti Íslands- og bikarmeisturum Vals klukkan 19:15. Hamborgarar og drykkir og okkar eini sinni Helgi Sæmundur í tjaldinu frá kl 18:00.
Þá verður pizzahlaðborð á Kaffi Krók eftir leik þar sem Helgi heldur áfram uppi stemmingunni. Fyrir leik verður Happy Hour á Sauða frá 16:00 til 18:00 og þeim sem geta á sig blómum bætt er bent á að Tindastólsbúðin verður á sínum stað! Þeir sem komast í Síkið og eru staddir sunnan heiða en vilja upplifa stemningu er bent á að heimaleikir Tindastóls eru sýndir á Ölveri.
Miðasala er á fullu á Stubb en einnig er hægt að nálgast miða við inngang í Síkið.
Hvað getur gerst í kvöld?
Það er mikið undir í leikjum kvöldsins en keppinautar Tindastóls (30 stig) á toppi deildarinnar, Stjarnan (30), mæta liði Njarðvíkur (28) sem er í þriðja sæti deildarinnar en Valur (26) er í fjórða sæti eftir erfitt gengi framan af tímabilinu. Sigur á Val færir Stólunum deildarbikarinn þó svo að Stjarnarn vinni Njarðvík þar sem okkar menn unnu báða leikina gegn Stjörnunni. Tapi Tindastóll en Stjarnan leggur Njarðvík þá fer deildarbikarinn í Garðabæinn. Svo gæti farið að þrjú lið; Tindastóll, Stjarnan og Njarðvík, endi með sömu stigatölu og þá verður Tindastóll deildarmeistari.
Reyndar var rætt um það á Stöð2Sport í gærkvöldi að Njarðvíkingar ættu möguleika á að verða meistarar vinni þeir Stjörnuna með yfir tíu stiga mun og Tindastóll tapi. Samkvæmt upplýsingum Feykis er það hins vegar þannig að fjöldi sigurleikja í innbyrðisviðureignum efstu liðanna ráði úrslitum en þar standa okkar menn best að vígi með þrjá sigurleiki en Stjarnan og Njarðvík geta mest státað af tveimur sigurleikjum að umferðinni lokinni.
Ljóst er að Haukar og Höttur falla niður í 1. deild en liðin í sjöunda til tíunda sæti berjast um síðustu tvö lausu sætin í úrslitakeppninni. Það verður því einhver dramatík í kvöld – það er kristaltært eins og Krúsarinn hefði orðað það.
Heimafólk hvatt til að skilja bílinn eftir heima
Reiknað er með góðri mætingu í kvöld og lögreglan beinir því til fólks að vanda sig við að leggja bílum sínum en reikna má með því að þeir verði sektaðir sem leggja á götunni milli heimavistar FNV og íþróttahússins. Á Facebook-síðu lögreglunnar er nánar farið yfir hvaða svæði er ólöglegt að leggja. Heimafólki er bent á að nota bílastæðin heima hjá sér og ganga frakar í Síkið ef það á þess kost. Á myndinn hér neðst í fréttinni má sjá að ólöglegt er að leggja ír rauðmerktu svæðin en þau gætu heft aðgang viðbragðsaðila sem gæti reynst afdrifaríkt.
Tökum tillit til viðbragðsaðila og munum að hvetja liðin fallega í kvöld. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.