Skagafjörður

73 umsóknir hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra

Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra auglýsti í september eftir umsóknum á sviði menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir árið 2024, með umsóknarfresti til 1. nóvember. Í frétt á vef SSNV segir að alls hafi borist 103 umsóknir þar sem óskað var eftir 221 milljón króna, en til úthlutunar úr sjóðnum fyrir 2024 voru rúmar 79 milljónir króna.
Meira

Eigum mikið inni - segir Pavel

„Ég var mjög ánægður með bróðurpartinn af leiknum. Liðið var að spila jafn vel og ég hef séð í vetur,“ sagði Pavel Ermolinski, þjálfari karlaliðs Tindastóls, þegar Feykir spurði hvort hann hefði verið ánægður með leik sinna manna í tapinu gegn Grindavík. „En svo fór allt í skrúfuna og við frusum algjörlega,“ bætti hann við.
Meira

Háskólasamstæða fýsilegasti kosturinn

Á heimasíðu Háskólans á Hólum segir að undanfarna mánuði hafi stýrihópur, skipaður fulltrúum Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum, unnið að því að meta fýsilega kosti um aukið samstarf eða sameiningu háskólanna tveggja. Fram kemur að í því skyni hafi fjórar mögulegar útfærslur verið greindar varðandi aukið samstarf eða sameiningu: Aukið formlegt samstarf, óbreytt samstarf, sameining að fullu og ný háskólasamstæða.
Meira

Hamfarapoppi fylgt eftir með útgáfutónleikum í byrjun apríl

Í lok árs 2023 gaf hljómsveitin Úlfur Úlfur, sem Króksararnir Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson skipa, út sína fjórðu plötu, Hamfarapopp. Nú styttist í að piltarnir fagni útgáfunni með útgáfutónleikum en þeir verða föstudaginn 5. apríl í Gamla Bíó í Reykjavík og er lofað mikilli hátíð.
Meira

Fulltrúar Byggðastofnunar kynna starfsemina

Fulltrúar Byggðastofnunar litu við í Ráðhúsinu á Hvammstanga sl. miðvikudagsmorgunn. Þar voru á ferðinni þau Arnar Már Elíasson forstjóri, Hrund Pétursdóttir forstöðumaður fyrirtækjasviðs og Sigríður Elín Þórðardóttir forstöðumaður þróunarsviðs. Í frétt á síðu Húnaþings vestra kemur fram að þau hafi kynnt umfangsmikla starfsemi stofnunarinnar en stefna hennar er blómleg byggð um land allt.
Meira

Grindvíkingar í hugum okkar allra

Forsíðufrétt Feykis er kannski ekki að koma inn alveg á réttum degi, svona í ljósi heimsóknar Grindvíkinga til  okkar í Síkið í gærkvöld, þar sem þeir komu og  unnu leikinn. Fyrirsögnin er dagsönn, en kannski akkúrat í dag halda margir að hér sé um að ræða skrif um leikinn en það er ekki svo. Mikið áfall dundi yfir Grindvíkinga að morgni sunnudags þegar gos hófst að nýju og var það ein versta sviðsmynd vísindamanna sem rættist þegar sprunga opnaðist í beinni útsendingu um hádegi rétt við bæjarmörkin og hraunið fór að renna inn í bæinn. Hugur allra landsmanna er hjá Grindvíkingum í þessari hræðilegu óvissu sem nú ríkir. Ljóst er að þegar þetta er skrifað rennur hraun ekki að svo stöddu inn í bæinn en framhaldið er óljóst. Vísindamenn segja að kvikugangur sé undir bænum og vísbendingar um að ný gosop geti opnast. Áfram mælist gliðnun innanbæjar í Grindavík svo ljóst er að ástandið er slæmt. Óvissa Grindavíkur og Grindvíkinga algjör. Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun vegna eldgossins við Grindavík. Afrakstur hennar verður nýttur til að styðja Grindvíkinga fjárhagslega.
Meira

Skráning fyrir vorönn í Dansskóla MenHúnVest

Nú er skráning hafin í Dansskóla Menningarfélags Húnaþings vestra fyrir vorönn 2024. Dansskólinn var stofnaður í haust og fékk vægast sagt góðar undirtektir og á þessari önn verður ekki einungis kennt á Hammstanga heldur líka á Blönduósi. Skólinn hefur göngu sína 26. febrúar næstkomandi og verður kennt í 10 skipti, eða til og með 7. maí. 
Meira

Hvað er að Stólunum!?

„Hvað er að ÍA?“ var spurning sem leikmaður ÍA, Óli Adda, fékk að heyra eftir að Skagamenn töpuðu sínum fyrsta leik þegar langt var liðið á eitt fótboltasumarið á síðustu öld. Símtalið kom frá Sveiflukónginum á Króknum. Kannski er kominn tími til að Sveiflukóngurinn hringi eitt vænt innanbæjarsímtal og beri upp sömu spurningu – og kannski ríkari ástæða til – en skipti ÍA út fyrir Stólana. Í gærkvöldi töpuðu nefnilega strákarnir okkar þriðja leik ársins – köstuðu frá sér sigrinum á lokamínútunum í leik gegn Grindvíkingum í Síkinu. Lokatölur voru 96-101 að lokinni framlengingu og meistararnir okkar í erfiðri stöðu í 8.-9. sæti Subway-deildarinnar.
Meira

Frostið fór í 25 gráður á Sauðárkróksflugvelli í gær

Það hefur verið fimbulkuldi hér fyrir norðan síðustu daga en í gær var minnstur hiti á landinu á Sauðárkróksflugvelli eða mínus 25 gráður. Bíleigendur á Sauðárkróki skulfu margir hverjir þegar þeir settust inn í farartækin sín og hitamælar sýndu um 20 stiga frost. Þekktir kuldapollar eru í Skagafirði og þá ekki hvað síst í nágrenni Héraðsvatna. Þannig mátti lesa á samfélagsmiðlum að mælar hefðu sýnt allt að 29 stiga frost við Löngumýri.
Meira

Hugrún og Aldís María klárar í slaginn

Áfram heldur knattspyrnudeild Tindastóls að bæta perlum á sumarfestina sína. Í gær var tilkynnt um að tveir máttarstólpa liðsins síðustu árin hefðu endurnýjað samninga sína við Bestu deildar lið Tindastóls. Þetta eru þær ofurstúlkur, Hugrún Pálsdóttir og Aldís María Jóhannesdóttir, sem báðar eru dugnaðarforkar á vellinum og fljótari en eldingin.
Meira