Þórhallur Ásmundsson | Minningargrein
Þórhallur Ásmundsson, fyrrverandi ritstjóri Feykis til rúmra 16 ára, lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar þann 14. janúar síðastliðinn. Hann lætur eftir sig eiginkonu, tvö uppkomin börn og þrjú fósturbörn ásamt barnabörnum og barnabarnabörnum. Starfsfólk Feykis sendir hlýjar kveðjur til fjölskyldu Þórhalls og vina.
Þórhallur var Fljótamaður, fæddur árið 1953 og uppalinn á Austari Hóli í Flókadal, foreldrar Ásmundur Frímannsson og Ólöf S. Örnólfsdóttur. Fótboltaáhuginn heltók Þórhall í æsku en hann fluttist til Sauðárkróks árið 1974 og lét fljótlega til sín taka í boltanum og við húsasmíðar. Þórhallur var sérfræðingur á vinstri kantinum með liðum Tindastóls, Neista og Þrym en síðasta árið í boltanum á Íslandsmóti var hann með liði GKS í 3. deildinni árið 2004 en þá var Þórhallur orðinn 51 árs gamall. Þá var hann öflugur skíðagöngumaður eins og margur Fljótamaðurinn og renndi sér sumar sem vetur.
Í viðtali við Berglindi Þorsteinsdóttur í afmælisblaði Feykis árið 2016 sagðist Þórhallur hafa byrjað í blaðamennsku á Degi dagblaði vorið 1986. „Hafði þá reyndar skrifað um íþróttir í Feyki í tvö til þrjú ár. Ég var svolítið einmana á skrifstofu Dags á Sauðárkróki og langaði að breyta til, var reyndar líka hvattur til að taka við Feyki. Ég byrjaði á Feyki í júníbyrjun 1988 og hætti í lok september 2004, sem eru 16 ár og fjórir mánuðir. Skemmst frá að segja fannst mér alla tíð spennandi og skemmtilegt að skrifa Feyki og ritstýra.“
Eftir árin á Feyki færði Þórhallur sig um set í boltabæinn Akranes og hóf störf sem blaðamaður á Skessuhorni. Þegar því skeiði lauk flutti hann til Siglufjarðar þar sem hann bjó til æviloka.
Í sama spjalli nefndi Þórhallur að af mörgum skemmtilegum viðmælendum hafi Ýtu-Keli og Pála Páls frá Hofsósi verið hvað eftirminnilegust. „Ýtu-Keli fyrir það hvað hann kryddaði sögurnar sínar vel og Pála hvað hún hafði yfirburðaþekkingu á enska boltanum, sló mér þar við held ég, þótt ég teldi mig vera vel inni í öllum boltafræðum á seinni hluta síðustu aldar. Jón í Gautsdal, Bangsa og Sigurð Eiríksson á Hvammstanga og marga fleiri gæti ég nefnt. Já, þeir voru margir viðmælendurnir sem ég kom ekki að tómum kofanum hjá.“
Þórhallur vissi í hvað stefndi enda stríddi hann við erfið veikindi síðustu misserin. Hann skrifaði í Helluna, blað þeirra Fjallabyggðarmanna, og falaðist eftir viðtali, sem birst hafði í Feyki síðasta sumar, til birtingar í Hellunni. Bauðst til að senda Feyki tvær sögur til birtingar í skiptum; aðra um fótboltadrauma í Fljótum og síðan jólasögu úr Fljótum til birtingar í JólaFeyki. Þetta þótti Feykisfólki góð skipti og allt stóð upp á tíu hjá Þórhalli.
Það var alltaf gaman að taka spjall við Þórhall.
Hvíl í friði
Skrifað af Óla Arnari
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.