Byggðaþróun í Húnabyggð | Torfi Jóhannesson skrifar
Þruma úr heiðskýru var það kannski ekki, en vissulega reiðarslag. Við lokun sláturhússins á Blönduósi missa 20-30 manns vinnuna og héraðið missir einn af sínum stærstu vinnustöðum. Það er langt síðan ég hef búið í sveitinni en stóran hluta þess tíma hef ég unnið við verkefni tengd landbúnaði og byggðaþróun. Síðasta áratuginn á vettvangi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Og það sem við sjáum gerast á Blönduósi er sagan endalausa. Stundum er það náma sem lokar, stundum herstöð, stundum stórt fyrirtæki, stundum ferðamannasvæði sem fer úr tísku og stundum bara hægfara þróun drifin af lágri fæðingartíðni og löngun unga fólksins að sækja menntun og vinnu í stærri þéttbýlisstaði.
Það er erfitt fyrir bæjarfélög að missa sína kjarnastarfsemi. Blönduós byggðist upp í kringum fullvinnslu landbúnaðarafurða, á sama hátt og mörg sjávarpláss byggðust upp í kringum fiskvinnslu. Hvað er síldarbær án síldar eða námabær án námu – ferjubær án ferju eða landbúnaðarþorp án landbúnaðarvinnslu?
Það er sjálfsagt að leita skýringa í nærumhverfinu – spyrja hvar við hefðum getað gert betur, hvar við misstum af tækifærum. Oftast geta menn séð í baksýnisspeglinum að of lengi var reynt blása í kulnaðar glæður; trúa því að sauðfé hætti að fækka; reka skóla fyrir allt of fáa nemendur, byggja upp höfn fyrir fækkandi skipakomur, halda of lengi í lítil sveitarfélög liðins tíma. Önnur samfélög harma að hafa ekki selt sparisjóðinn sinn áður en allt fór í óefni, að hafa fjárfest í röngum atvinnurekstri eða jafnvel hlutabréfum sem töpuðust. En rót vandans er sjaldan þessi einstöku atvik eða misvitrar ákvarðanir.
Niður tímans er þungur, og öll minni byggðalög sem ég þekki berjast við svipuð vandamál og Blönduós. Þar sem áður var banki með bankastjóra er nú (í besta falli) hraðbanki. Þar sem áður var kaupfélagsskrifstofa með kaupfélagsstjóra er nú (í besta falli) verslunarstjóri, þar sem áður var sjúkrahús með fæðingardeild er nú (í besta falli) læknir á skilorði, þar sem áður var bensínstöð er nú (í besta falli) dæla, þar sem áður var byggingavöruverslun, bókabúð, pósthús, bakarí, þar er nú kannski ekki svo mikið annað.
Þessi þróun er drifin af tækniframförum, fólksfækkun í dreifbýli og óhjákvæmilegum breytingum í atvinnuháttum. Til að setja þessa hluti í samhengi er gott að skoða þróunina yfir tíma og horfa yfir garðinn til nágrannahéraðanna. Í myndinni hér að ofan er íbúaþróunin í Blönduósi borin saman við Sauðárkrók og Borgarnes.
Bæði Borgarnes og Blönduós upplifðu kröftugan vöxt frá aldamótunum 1900 fram til ca. 1980/1985 þegar kvótasetning í landbúnaði stöðvaði vöxt þeirra og fjölmargra annarra þéttbýlisstaða á Íslandi og víðar. En hvað gerðist eftir það? Í Borgarnesi tók við tímabil stöðvunar fram til ársins 1998 þegar Hvalfjarðargöngin opnuðu. Þá hófst nýtt vaxtartímabil í Borgarfirði með tengingu við höfuðborgarsvæðið, uppbyggingu ferðaþjónustu (veðrið skemmir heldur ekki fyrir), byggingaiðnaðar, háskólastarfs og ef allt annað þraut, mátti alltaf sækja vinnu í bæinn.
Þessi áhrif náðu hins vegar ekki norður heiðar og íbúum á Blönduósi fór að fækka. Blönduós er í alfaraleið en samt frekar afskekkt. Næsti bær með meir en 10.000 íbúa er Akureyri, þangað eru tveir fjallvegir og einfaldlega of langt. Blönduós hafði ekki útgerð. Það hafði Skagaströnd en þangað eru 22 langir kílómetrar og þrálát sveitarfélagamörk. Það var því erfitt að takast á við samdrátt í þeim atvinnugreinum sem drifið höfðu vöxt samfélagsins.
Á Sauðárkróki hélt fólksfjölgunin áfram nokkrum árum lengur, eða allt fram til 1995. Þar spilar inn öflugur sjávarútvegur, uppgangur Hólaskóla, framhaldsskóli og fjölbreyttara atvinnulíf. En þrátt fyrir allt þetta hefur íbúum á Sauðárkróki ekki fjölgað síðustu 30 árin. Sauðárkrókur hefur líka sína djöfla að draga: Er ekki í alfaraleið, aðeins of langt frá Akureyri fyrir atvinnusókn en nógu nálægt fyrir verslun, hefur ekki náð að byggja upp umtalsverða ferðaþjónustu, er langt frá Reykjavík, en samt ekki nógu langt til að flugsamgöngur gangi upp. En unnið vel úr sínu.
Ef við víkkum sjónarhornið aðeins og skoðum íbúaþróunina í þéttbýli annars vegar og dreifbýli hins vegar verður myndin bæði skýrari og alvarlegri. Næstu fjórar myndir hér að ofan sýna íbúaþróunina í Dölum, Borgarfirði (og Mýrum), Húnavatnssýslum og Skagafirði. Hér hef ég slegið öllum þéttbýlunum saman til að einfalda myndina.
Fækkunin í sveitunum er samfelld, ef frá er skilið stutt tímabil á sjötta og sjöunda áratugnum. Verst hefur hún verið í Dölum, þar sem sveitirnar telja nú einungis 17% af íbúafjöldanum árið 1900. Í Skagafirði og Húnavatnssýslum er hlutfallið tæp 30% en í Borgarfirði hefur „einungis“ fækkað um rúmman helming í sveitunum. Þar sem skilur á milli er geta þéttbýlanna til að styðja við búsetu í sveitunum og að bæta upp fólksfækkun sveitanna. Þetta hefur gengið í Borgarfirði en ekki í Dölum. Norðan heiða gekk vel framanaf öldinni en síðan 1980 hefur íbúum fækkað. Það þarf meira til.
Það verður ekki slátrað fé aftur á Blönduósi. Sauðfé á Íslandi hefur fækkað um 30% síðan 2015 og nær 60% síðan 1980 og fækkunin heldur áfram. Það er hins vegar vöxtur í ferðaþjónustu og það eru líka tækifæri í matvælaframleiðslu, orkuframleiðslu og öðrum greinum. Það þarf að flytja fleiri opinber störf út á land, styrkja þjónustu, efla menntun í heimabyggð og byggja upp fjölbreyttan iðnað. Minnumst þess að núna vinna fleiri í gamla mjólkursamlagshúsinu á Blönduósi en nokkru sinni áður þótt mjólkurvinnslu hafi verið hætt árið 2008. En ekkert af þessu gerist af sjálfu sér og ekkert af þessu gerist án öflugs frumkvæðis heimamanna. Í því samhengi verður ekki litið fram hjá mikilvægi öflugra sveitafélaga.
Húnabyggð er með aðeins 1370 íbúa, sem fer fækkandi. Húnaþing vestra enn færri. Í svo litlum einingum er lítið rými til annars en að sinna lögbundnum verkefnum. En ef sveitarfélögin á Norðvesturlandi sameinuðust yrði til 10. stærsta sveitarfélag landsins – næst á eftir Mosfellsbæ, Árborg og Akranesi. Sveitarfélag sem hefði fjárhagslegt, faglegt og pólitískt afl til að vinna að þróunarverkefnum fyrir allt svæðið. Sameining sveitarfélaga ein og sér er ekki nægjanleg til að vinna gegn neikvæðri byggðaþróun en ég held að fjölmörg dæmi, frá fjölmörgum löndum, sýni að öflugar stjórnsýslueiningar eru nauðsynleg forsenda þess að það sé hægt. Það er ekkert einfalt mál að skapa þannig stjórnunareiningu, en það hefur oft verið gert. Og oftast af nauðsyn. Það má líka bíða, sjá til og blása í kulnaðar glæður. Það hefur líka oft verið gert, en sjaldan með góðum árangri.
Greinin er af huni.is
Torfi Jóhannesson
Frk.stj. Nordic Insights
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.