Þorbjörg Eyhildur og Sæmundur Sigursveinn - Minning
Fallin eru frá þau mætu hjón Þorbjörg Eyhildur Gísladóttir og Sæmundur Sigursveinn Sigurbjörnsson frá Syðstu-Grund í Skagafirði. Þeirra er vert að minnast. Þegar dró að jarðarför þeirra fóru veðurguðirnir að ýfa sig svo mörgum varð nóg um og órótt í sinni en hvað gerist? Jú, guðirnir þeir höfðu hemil á sér daginn sem útförin fór fram þann 16. nóvember s.l. og dagurinn varð bjartur í kuldalegri fegurð sinni. Fannhvít Blönduhlíðarfjöllin með Glóðafeyki fremstan meðal jafningja, drúptu höfði af virðingu þegar þau voru jarðsett í Flugumýrarkirkjugarði, hjónin sem búið höfðu lengst af ævi sinnar undir þeirra vernd.
Og að dreif fjölda fólks sem von var. Þau Lilla og Sæmi voru bæði úr fjölmennum systkinahópum í Skagafirði, ættbogarnir geysistórir og allir vildu koma til að kveðja þetta fólk sem svo lengi hafði búið á bökkum Héraðsvatna, í miðri sveit þar sem vegir liggja raunar til allra átta og ófáir ferðalangar í Skagafirði eiga bókstaflega sagt leið um hlaðið. Og þeim sem drápu á dyr var jafnan tekið með kostum og kynjum og enn er uppi öld kaffiborðsins á sveitabæjum, allavegana er það þannig á Syðstu-Grund.
Lillu kynntist ég fyrst í Græna salnum í Bifröst á Sæluviku fyrir óralöngu síðan. Þar var hún með Maríu systur sinni og frænkum frá Flugumýri og ég komst að raun um að fólkið hans Svenna væri skemmtilegt, söngvið og gestrisið því okkur var strax boðin gisting á Syðstu-Grund ef veður versnaði, þar væri nóg pláss og mann grunar að svo hafi verið allar götur síðan. Og ég treysti því sem sagt, að allt fólkið hans Svenna væri eins og þessar mögnuðu konur. Auk þess að vera skemmtileg og söngvin var Lilla velviljuð kona, raungóð og trygg þeim sem hún tók. Henni var annt um allt sitt fólk og hugsaði vel um að halda tengingum og tapa ekki sambandi við þá sem stóðu henni nærri og eiginlega langt út yfir það. Barnahópurinn hennar ber þess merki að enginn hálfkær-ingur eða hirðuleysi hefur ráðið för á heimilinu því. Tæplega er hægt að segja að þau hafi verið skaplík hjónin Lilla og Sæmi en sambúð þeirra stóð þó föstum fótum, kannski er bara best að hjón séu ólík, það tryggi samfelluna, hver veit.
Sæmundur var auðvitað hjálparhella heils sveitarfélags og þótt lengra væri seilst. Aldrei neitaði hann kvabbi og bónastagli nágranna og sveitunga og hvenær sem flytja þurfti, vantaði möl, fara þurfti í Krókinn í hvelli eftir byggingarefni eða bara skella bílkrananum ofan á fjúkandi þak, þá var Sæmi alltaf til taks. Hvort allir snúningarnir voru greiddir upp í topp skal ósagt látið en vona má að hann fái allt goldið á degi uppgjörsins. Minnisstæðastur er Sæmi á baki hesti sínum, leggjandi af stað heim þar sem hestur og maður eru komnir langt á veg þegar kveðjan nær til þeirra sem eftir standa, svo gustmiklir voru fjörgaparnir sem hann átti, eiginlega undantekningalaust.
Fljótt varð ég þess áskynja þegar ég flutti í Skagafjörð fyrir réttri hálfri öld að traust bönd voru milli SyðstuGrundarhjóna og tengdaforeldra minna, Sveins og Lilju á Frostastöðum, þau systkinin Sveinn og Lilla voru samrýmd og samgangur mikill milli fjölskyldnanna. Þessi traustu bönd héldust alla tíð, haldast raunar enn í dag og þegar litið er til afkomenda þeirra verður vonandi svo fram á leið.
Sveitin hefur misst sterkar stoðir en minningin um gott fólk og arfleifð þess lifir, nýjar kynslóðir koma og Feykirinn heldur vöku sinni eftir sem áður yfir byggð og búum. Við kveðjum með hinni eldfornu og þó síungu kveðju Sólarljóða:
Hér við skiljumst
og hittast munum
á feginsdegi fira;
drottinn minn
gefi dauðum ró,
en hinum líkn, er lifa.
Afkomendum og aðstandendum öllum sendum við einlægar samúðarkveðjur.
Anna Dóra Antonsdóttir og Sveinn Sveinsson frá Frostastöðum
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.