Sigríður Ólafsdóttir - Minning

Mynd tekin af https://atom.hunabyggd.is/
Mynd tekin af https://atom.hunabyggd.is/

Við andlát Sigríðar Ólafsdóttur, fyrrum húsfreyju í Ártúnum, hvarflar hugurinn rúmlega fjörutíu ár aftur í tímann til ársins 1981, er undirritaður vígðist til starfa sem sóknarprestur í Bólstaðarhlíðarprestakalli. Ártúnsheimilið var eitt fyrsta heimili, er ég steig fæti inn á við komuna þangað. Þar réðu þá ríkjum heiðurshjónin, Sigríður og Jón Tryggvason, organisti og kórstjórnandi með meiru. Þar var aðfluttri prestsfjölskyldu strax tekið með þeirri vinsemd, sem síðan hefur staðist tímans tönn.

Sigríður var fædd og átti sín bernskuár á bænum Mörk á Laxárdal fremri, komin af grónum bændaættum. Hún fór til náms í Laugaskóla og Húsmæðraskólanum á Blönduósi. Hún giftist Jóni Tryggvasyni frá Finnstungu og saman reistu þau nýbýlið Ártún á landi Tungu og bjuggu þar allan sinn búskap, byggðu upp útihús og ráku farsælt blandað bú, síðar ásamt með syni sínum, Tryggva og konu hans, Jóhönnu Magnúsdóttur, er byggðu sér annað hús þar við hliðina.

Sigríður var vaxin upp í anda ungmennafélagshreyfingarinnar, þar sem ættjarðarást og ræktun lands og lýðs var í fyrirrúmi, og það mótaði lífsferil hennar. Henni var annt um dalinn sinn og sveitina og hafði mikinn metnað fyrir hennar hönd, og þar lagði hún marga gjörva hönd á plóg ásamt manni sínum við hvað eina, er til heilla og framfara horfði í sveit og samfélagi, starfaði m. a. um langt árabil í kvenfélagi sveitarinnar og ungmennafélagi. Skógarreit ræktaði hún upp á holtinu ofan bæjar og fagran skrúðgarð heima við bæ. Hún hafði næmt auga fyrir fegurðinni, hvar sem hún birtist, var mikil handverkskona, saumaði út og málaði fallegar myndir, sem athygli vöktu.

Sigríður var höfðingleg kona í sjón og raun, frá henni stafaði hlýju og góðvild til manna og málleysingja. Hún var skemmtileg í tali, fróð og vel lesin, ekki síst í verkum ljóðskáldanna, fylgdist vel með öllum hræringum þjóðlífsins allt til hins síðasta, en hafði sínar ákveðnu skoðanir á mönnum og málefnum. Hún hugleiddi andlegu málin og lét sér annt um kirkju og kristindóm. Henni fannst allt í lagi „að prestar yrðu gamlir í embætti“ eins og hún orðaði það, en vildi fremur, að það væru karlprestar. Sigríður var mikilvirk húsmóðir og fjölskyldumanneskja, hún bjó fjölskyldunni einkar fallegt heimili, þar sem tónlistin skipaði veglegan sess, en sjálf var Sigríður tónelsk og söng lengi í kirkjukórnum. Þennan arf mennta og listfengi eftirlétu þau hjón börnum sínum sjö að tölu og fjölmennum afkomendahópi, sem hafa erft alla hina góða kosti.

Eftir lát Jóns árið 2007 bjó Sigríður lengi áfram í sínu húsi. Hún bar aldurinn einstaklega vel, svo athygli vakti. Síðustu árin dvaldi hún á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi og naut þar góðrar aðhlynningar. Þar lést hún á skírdag, 28. mars, á afmælisdegi manns síns, á 100. aldursári. Samstíga voru þau í lífinu, og nú hafa þau gengið saman þangað, þar sem hið fyrra er farið, en allt orðið nýtt í Drottni. Veri þau bæði Guði á hendur falin.

Ólafur Hallgrímsson 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir