Minning : Stefán Pedersen

Stefán Pedersen. MYND AF VEF GSS
Stefán Pedersen. MYND AF VEF GSS
Stefán Pedersen heiðursfélagi GSS lést 9. september og var borinn til grafar í dag, 21. september.
 
Aðrir kunna sögu Stefáns betur en ég. Ljósmyndun var aðalstarf hans og eftir hann liggja margar myndir frá starfi golfklúbbsins. Ég minnist Stefáns fyrst og fremst eftir að hafa hitt hann ótal oft á vellinum, en Stebbi rúntaði upp á völl oft á dag og gaf sig á tal við félaga sína í GSS. “Sýndu mér nú gott dræv” sagði hann gjarnan þegar ég spjallaði við hann við níunda teig. Þar kom Stebbi sér gjarnan fyrir og tók svo rúntinn niður á sjötta teig.
 
Stefán vakti líka athygli mína fyrir að hafa í áraraðir lesið sögur fyrir fólkið á sjúkrahúsinu.
 
Góður maður er fallinn frá. Ég fletti upp í sögu GSS á heimasíðu félagsins en Unnar Ingvarsson tók söguna saman sem birtist í 50 ára afmælisriti GSS árið 2020 . Þar stendur:
 
“Fyrsta golfkeppni á vegum klúbbsins var haldin 11. september 1977. Brautinar 6 voru slegnar og reynt að útbúa þokkalegar flatir. Þar voru spilaðir þrír hringir, eða 18 holur. Stefán Pedersen fór á fæstum höggum eða 88. Árni Friðriksson og Steinar Skarphéðinsson fóru á 90 höggum. Kristján Skarphéðinsson gaf fyrstu verðlaun, silfurkönnu, en Erling Örn Pétursson gaf golfkylfur fyrir annað og þriðja sæti. Stefán varð þannig fyrsti klúbbmeistari Golfklúbbs Sauðárkróks, en þátttakendur í þessu fyrsta móti golfklúbbins voru 17 talsins.”
 
Stefán var útnefndur heiðursfélagi GSS árið 2019. Í fundargerð aðalfundar kom fram:
 
" Í lok fundar var Stefán Pedersen kjörinn heiðursfélagi klúbbsins en hann hefur verið drjúgur við ljósmyndun í þágu klúbbsins í gegnum tíðina auk þess að sýna starfseminni lifandi áhuga og vera nánast hluti af vellinum."
 
Ég legg til að teigur á níundu verði nefndur Stefánsteigur. Blessuð sé minning Stefáns Pedersen
 

Kristján Bjarni Halldórsson
fyrrv. formaður GSS

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir