Hans Birgir Friðriksson, veiðimaður - Minning
Við sem stöndum að þessari grein vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að vera vinir og veiðifélagar Bigga Malla. Biggi Malla er nú látinn, fyrir aldur fram. Maður sem nánast aldrei kenndi sér meins, lifði meinlætalifnaði og var með eindæmum hraustur. Biggi vann Grettisbikarinn átta sinnum og átti ótal met í sundíþróttum bæði á yngri árum og síðar í öldungaflokkum, setti þar á meðal Íslandsmet í 50 m skriðsundi á Norðurlandamóti öldunga 2008 auk þess að verða Norðurlandameistari öldunga 2003. Svona snúa örlögin á okkur, koma aftan að okkur þegar við eigum þess síst von og hrifsa frá okkur þá sem okkur þykir vænt um. Eftir standa skörð sem ekki verða fyllt.
Biggi var nokkrum árum eldri en við og við kynnumst honum ekki fyrr en á táningsaldri. Hann, ásamt Hannesi bróður sínum, vann á þeim tíma í Steypustöðinni á Króknum þar sem steypt voru m.a. lagnarör fyrir vatnslagnir og frárennsli. Þeir bræðurnir sóttu sér stundum járnstangir og steyptu inn í tvö lagnarör þannig að úr urðu hin fínustu lyftingatól. Fengum við guttarnir stundum að fylgjast með þeim snarhenda þessum gríðarlegu lóðum yfir höfuð sér. Við höfðum það oft á orði að handleggirnir á þeim bræðrum væru að sverleika á við símastaura.
Við þessi kynni kom sameigilegur áhugi á veiðiskap í ljós. Þegar fram liðu stundir fórum við að veiða með Bigga, bæði á stöng og með byssu. Að vísu var Biggi nánast blindur á þessum árum, hafði einungis takmarkaða sjón á öðru auga. Það kom ekkert að sök, þegar við lágum fyrir gæs og heyrðum þær nálgast hvíslaði Biggi, „hvar eru þær?“ Við vísuðum honum í áttina og það lágu oftast einhverjar hjá okkur. Hann náði að beina hlaupinu á réttan stað þrátt fyrir þessa ákveðnu annmarka. Ef við ætluðum yfir vötnin í kvöldflug, þá var það ekkert mál, Biggi bar okkur yfir. Biggi fylgdist með farfuglunum þegar þeir komu, hann var náttúruunnandi, hann var nærgætinn við varpstöðvar. Biggi var verndari mýranna umhverfis Sauðárkrók, sá um að vargur væri þar í lágmarki.
Við verðum að minnast á eina sérstaka veiðiferð í Blöndu. Þá voru saman á stöng Biggi og Einar Stefánsson og á stöng með einum okkar var danskur maður sem Morten heitir. Morten þessum þótti það ekki vera líklegt til árangurs að kasta spæni út í kolmóruga á og ætlast til þess að á hann kæmi lax. Rétt er að geta þess að þetta var einum áratug áður en Blanda var virkjuð, jökuláin kolmórauð og eina leiðin til þess að nýta hana var að húkka fiskinn. Dananum brá svo auðvitað við, þegar að skammri stundu liðinni fyrsti stórlaxinn var kominn á og síðan háfaður upp á land. Nokkuð var af laxi í ánni, mikið vatn og flæddi vel að bökkunum. Einar er að veiðum og var að byrja að vaða út í ána þegar hann hrópar „það er lax, það er lax hérna innan við mig.“ ,,Ha hvar???" kallar Biggi og grípur háfinn. Hann hleypur síðan með háfinn tíu til fimmtán metra niður með bakkanum og dýfir honum ofan í og viti menn, hann kemur upp með 13 punda lax, spriklandi í háfnum. Nú var Morten öllum lokið, nánast blindur maður dýfir háf ofan í koldrulluga á og kemur upp með spriklandi lax. Svona nokkuð gerist EKKI í Danaveldi.
Þetta eru hins vegar litlar fréttir fyrir þá sem þekktu Bigga. Hann hafði þetta eitthvað, þetta óútskýranlega sem einkennir afburða veiðimenn. Hans skynjun á náttúrunni var sterkari en gengur og gerist og hann vissi oft það sem ekki ætti að vera nein vissa fyrir. Hann vaknaði kannski um miðja nótt og fór af stað þótt að það hefði ekki verið áformað. Biggi var nefnilega líka mjög berdreyminn. Oft á tíðum fékk hann upp úr þurru hugboð um að vitja um minkagildru og þá stoppaði hann ekkert. Og í hvert sinn hafði hann rétt fyrir sér, minkur var í gildrunni. Þetta vissi hann líka alveg fram á síðustu stundu, þegar hann spurði, ,,var ekki kominn minkur?" Ójú, það var kominn minkur.
Biggi stundaði eiginlega allar veiðar sem hægt er að stunda hér á Íslandi. Veiðar voru hans líf og yndi og hann hugsaði vel um afla sinn og matbjó þá bráð sem hann veiddi, fyrir utan minka og refi auðvitað. Hann þurfti aldrei í verslanir til þess að eiga í matinn. Biggi fór í augnsteinaskipti á fertugsaldri, öðlaðist ágæta sjón og tók síðan bílpróf. Það breytti gríðarlega miklu fyrir þennan mann náttúrunnar og veiðanna. Fyrir utan hans einstæðu hæfileika til veiða var Biggi afar hagur á smíðar. Hann smíðaði úr nánast öllum efnum en sjálfsagt mest úr leðri. Þar naut hagleiki hans sín vel. Biggi var heldur ekkert að fara í búðina til þess að verða sér úti um einhverja smámuni, hann einfaldlega smíðaði þá sjálfur. Á seinni árum byrjaði Biggi að mála og teikna. Það verður að teljast einstakt af manni sem sá lítið sem ekkert á fyrri hluta sinnar ævi. Biggi sýndi og seldi fjölmörg málverk á sýningum eftir að hann fór að sýna þau. Hann sá annað í sjóndeildarhringnum en aðrir og báru verk hans þess merki. Eftirtektarverð eru líka verk hans við steinhleðslu og má sjá handbragð hans víða á Sauðárkróki og nágrenni.
Það er eitt afar sérstakt sem einkenndi Bigga. Hann talaði aldrei illa um neinn mann, talaði aldrei niður til neins. Hann var einstaklega bóngóður, sagði aldrei nei, ef hann með nokkru móti gat hjálpað. Biggi lagði hönd á plóg víða og þá sérstaklega þar sem virkileg þörf var fyrir hendi. Og hann fór aldrei fram á endurgjald. Svoleiðis menn eru vandfundnir í dag. Þær eru eftirminnilegar heimsóknirnar á Ægisstíginn. Þessi rólegheitamaður með sín hnyttnu tilsvör og sína sérstæðu kímnigáfu. Oft á tíðum kemur það fyrir okkur að við skellum upp úr löngu seinna yfir því að rifja upp það sem Biggi sagði, og gerum enn. Hans oft einstöku setningar og tilsvör vekja upp skemmtilegar minningar.
En nú er Biggi Malla farinn á hinar eilífu veiðilendur og hann verður búinn að skoða árnar og kanna heiðarnar þegar við komum til hans. Þar munum við njóta leiðsagnar hans eins og við höfum notið í þessu lífi. Við vottum ættingjum og fjölskyldu Birgis okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Stefán Ingi Sigurðsson
Ægir Sturla Stefánsson
Skarphéðinn Ásbjörnsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.