Svipmyndir frá Landsmóti hestamanna
Landsmót hestamanna er komið á fulla ferð eins og lesendur Feykis.is hafa eflaust áttað sig á. Á annað þúsund manns voru mættir á mótið á Hólum í Hjaltadal áður en keppni hófst á mánudag og kom góð mæting svo snemma móts skemmtilega á óvart. Um 5000 miðar seldust í forsölu fyrir mótið, þar af keyptu útlendingar fjórðunginn, og er því reiknað með a.m.k. 5000 gestum á Landsmót.
Á ruv.is segir frá því að mótið fer fram á Hólum í fyrsta skipti í hálfa öld. Lárus Ástmar Hannesson, formaður Landssambands Hestamannafélaga, segir gott fyrir Hóla að þessi hápunktur hestamennskuársins fari fram þar. „Þetta er æðsta menntastofnun íslenska hestsins í heiminum. Það er bara gott að við náum að nýta þetta svæði og byggja það upp til að halda áfram að efla unga knapa.“ Ráðist var í miklar framkvæmdir á Hólum vegna mótsins og segir Lárus að sú uppbygging hafi gengið ævintýraleg vel með stuðningi sveitarstjórnarmanna og annarra.
Mótssetning verður á Hólum kl. 19:45 á fimmtudagskvöld og eftir það færist fjör í mótið því föstudag og laugardag fara fram helstu úrslitakeppnirnar. Rétt er að benda á að keppnishaldi lýkur á laugardagskvöldi á LM 2016 en ekki á sunnudegi eins og verið hefur.
Eftir keppnisspennuna þá verður slegið upp útitónleikum á tónlistarsvæði Landsmóts. Fimmtudaginn 30. júní mætir Sigvaldi ásamt Hljómsveit kvöldsins. Á föstudagskvöldi verða Matti Matt, Sverrir Bergmann og Magni ásamt hljómsveit og ætti þá að bergmála fjöllunum í. Að sjálfsögðu mætir Hljómsveit Geirmundar á laugardagskvöldi og einnig Made in Sveitin og Ágústa Eva. Það ættu því allir að finna eitthvað fyrir sig á Landsmóti á Hólum.
Myndirnar sem hér fylgja voru teknar af ljósmyndurunum skagfirsku, Gunnhildi Gísladóttur og Pétri Inga Björnssyni, og eru frá dögunum fyrir Landsmót og fyrstu dögum Landsmóts.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.