Stór hópur frá Fisk Seafood heimsótti Barcelona

Starfsmenn Fisk Seafood fyrir utan verksmiðju Iceland Seafood í Barcelona.
Starfsmenn Fisk Seafood fyrir utan verksmiðju Iceland Seafood í Barcelona.

Upp úr miðjum september, nánar tiltekið dagana 18.–23. september, fór 70 manna hópur á vegum Starfsmannafélags Fisk Seafood í skemmti- og skoðunarferð til Barcelona á Spáni. Tókst ferðin í alla staði vel og komu starfsmennirnir og makar þeirra endurnærðir til baka.

Lagt var af stað frá Króknum um hádegisbilið þann átjánda og flogið frá Keflavík þegar tekið var að kvölda. Veðurguðirnir voru ferðalöngunum hliðhollir eins og vænta mátti þegar farið er til sólarlanda og gisti hópurinn í góðu yfirlæti á Hotel Catalonia Barcelona Plaza á meðan á dvölinni stóð. Á laugardagskvöldinu var sameiginlegur kvöldverður í boði Fisk Seafood á Mussol Las Arenas veitingastaðnum sem er staðsettur ofan á þakinu á gamla hringleikahúsinu þar sem nautaatið fór fram í denn. 

Að sjálfsögðu voru verslanir og moll heimsótt að hætti Íslendinga en einnig voru kaupendur af fiski frá Fisk Seafood heimsóttir. Icelandic Iberica bauð fólkinu í höfuðstöðvar sínar í Barcelona og í framhaldinu buðu þeir upp á heimsókn í Vinseum, sem er vínsafn í Villafranca de Penedes, og í framhaldinu var kíkt til vínframleiðandans Codorniu, sem er annar stærsti Cava framleiðandi á Spáni. Þá var einnig sótt heim vinnsla Iceland Seafood í Barcelona. Einhverjir nýttu sér að sjálfsögðu tækifærið og fóru á fótboltaleik með Evrópumeisturum Barcelona og þá vildi svo skemmtilega til að borgarhátíð stóð yfir á meðan Skagfirðingarnir dvöldu úti og því mikið fjör og gaman um alla Barcelónuna.

Ferðalangarnir komu loks aftur heim á Krók um miðjan dag þann 23. september – þreyttir en ánægðir með góða ferð.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá nokkrum ferðalanganna sem voru svo greiðviknir að lána Feyki þær til birtingar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir