Stefnir í ógleymanlega stund á Drangey Music Festival

Drangey Music Festival
Drangey Music Festival

Drangey Music Festival fer fram annað kvöld á Reykjum á Reykjaströnd. Samkvæmt Viggó Jónssyni, einum af skipuleggendum hátíðarinnar, hefur undirbúningurinn gengið stórvel, það sé allt að verða komið.

„Þetta hefur gengið vel en þetta er í annað sinn sem við gerum þetta og við reynum að læra af því sem við gerðum áður,“ sagði Viggó í samtali við Feyki. Ennfremur segir Viggó að hátíðin hafi mælst vel fyrir og að menn séu glaðir með þetta.

Hátíðin var fyrst haldin í fyrra og heppnaðist hún afar vel og líður gestum hátíðarinnar seint úr minni.

Óhætt er að segja að um mikla tónlistarveislu sé að ræða en alls eru það fimm atriði sem verða á hátíðinni en það eru Úlfur Úlfur, Retro Stefson, Beebee and the Bluebirds, Sverrir Bergmann og Stebbi og Eyfi. Á svæðinu er kaffihús, tjaldstæði og einstakt útsýni til Drangeyjar.
Veðurspáin fyrir helgina er nokkuð hagstæð fyrir Norðurland Vestra en samkvæmt Veðurstofu Íslands verður hitinn á milli 10-18 stig á morgun.

Miðasalan hefur farið ágætlega af stað að sögn Viggós en hægt er að kaupa miða á midi.is en einnig verður hægt að kaupa miða við hliðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir