Safnahús Skagfirðinga opnað eftir endurbætur
Safnahús Skagfirðinga var opnað á föstudaginn eftir miklar og gagngerar endurbætur á húsnæðinu. Var ný lyfta m.a. tekin formlega í notkun og var það dyggur gestur safnsins, Anna Þórðardóttir, sem fór fyrstu ferðina með henni.
Í máli Stefáns Vagns Stefánssonar, formanns byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, kom fram að um 500 fermetrar hefðu verið undir í framkvæmdinni, sem ýmist eru alveg nýtt rými eða voru endurnýjaðir algjörlega. Einnig kom fram að þegar lyftan var sett upp hefði verið gert ráð fyrir þeim möguleika að hægt væri að byggja hæð ofan á húsið.
Er óhætt að segja að allt aðgengi að söfnum hússins aukist til muna við þær endurbætur sem fram hafa farið og um leið er húsið orðið hið glæsilegasta. Eins og sjá má að meðfylgjandi myndum sem blaðamaður Feykis tók lagði fjöldi fólks leið sína í Safnahúsið til að fagna þessum áfanga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.