Myndir frá Hólahátíð
Hin árlega Hólahátíð var haldin á Hólum í Hjaltadal sunnudaginn helgina 12.-14. ágúst. Hófst hún á föstudegi með tónleikum í Hóladómkirkju þar sem barokksveit Hólastiftis kom fram, en í ár voru Hólahátíðin og Barokkhátíðin sameinaðar í eina hátíð. Á hátíðinni í ár var þess minnst að 350 ár eru liðið frá því að Passíusálmar sr. Hallgríms Péturssonar komu fyrst út á prenti og af því tilefni hefur sýning á útgáfum sálmanna verið opin í Auðunarstofu allan ágústmánuð.
Á laugardegi var gengin pílagrímaganga frá Gröf á Höfðaströnd heim að Hólum og að henni lokinni var helgistund í Hóladómkirkju og kvöldverður Undir Byrðunni. Á sunnudeginum hófst dagskrá með messu í Hóladómkirkju. Sr. Hildur Eir Bolladóttir predikaði en fyrir altari þjónuðu sr. Halla Rut Stefánsdóttir sóknarprestur, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum og sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson biskup. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir lýsti blessun. Kór Hóladómkirkju söng, undir stjórn Jóhanns Bjarnasonar og Helena Guðlaug Bjarnadóttir sópran söng einsöng. Félagar úr barokksveit Hólastiftis, þau Lára Sóley Jóhannsdóttir, Ásdís Arnardóttir og Eyþór Ingi Jónsson léku á hljóðfæri. Að messu lokinni var boðið upp á hátíðarkaffi í Hólaskóla. Var síðan boðið til samkomu í Hóladómkirkju þar sem sr. Solveig Lára flutti ávarp og forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson flutti hátíðarræðu, eins og nánar er greint frá á forsíðu. Meðfylgjandi myndir tók blaðamaður Feykis á Hólahátíð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.