Margmenni á golfdegi í blíðskaparveðri
Um 60 manns heimsóttu Vatnahverfisvöll við Blönduós á golfdegi PGA, mánudaginn 10. júní, og nutu leiðsagnar fjögurra kennara í PGA golfkennaranámi. Golfdagur PGA var haldinn á fjórum stöðum á landinu að þessu sinni.
,,PGA á Íslandi auglýsti lokaverkefni golfkennaranema en það snerist um að koma til golfklúbba og kenna golf. Ég sótti um til PGA , sótti um styrki til fyrirtækja í bænum og dagurinn í dag var afrakstur þessa,“ segir Jóhanna G. Jónasdóttir, formaður Golfklúbbsins Óss á Blönduósi í samtali við Feyki.
Golfklúbburinn Ós hefur verið starfræktur frá árinu 1985. Félagar í klúbbnum eru 35 og lítil endurnýjun hefur átt sér stað á síðustu árum. Illa hefur gengið að fá golfkennara út á landsbyggðina en þeir eru bráðnauðsynlegir ef halda á úti barna- og unglingastarfi. Golfklúbburinn hefur farið ýmsar leiðist síðustu ár en engin varanleg lausn hefur fundist. ,,Ég fór á fund framkvæmdastjóra golfklúbba í mars 2017 og var erindi mitt að beina augunum að kennaraleysi á landsbyggðinni. Ég var búin að hafa samband við litla golfklúbba um allt land og alls staðar var sama sagan. Agnar Már Jónsson, sem sat fundinn með mér, tók málin í sínar hendur en hann sat í stjórn PGA en PGA á Íslandi rekur Golfkennaraskólann, sem stendur fyrir faglegu og krefjandi golfkennaranámi,“ segir Jóhanna.
Í framhaldinu var haldið málþing um stöðu golfkennaramála á landsbyggðinni. Jóhanna sótti leiðbeinendanámskeið og hefur því leyfi til að leiðbeina börnum og unglingum. Síðasta sumar hélt hún svo úti golfleikjanámskeiði fyrir krakka á aldrinum 6 – 10 ára. Sumarið 2017 fékk Golfklúbburinn John Garner golfkennara, sem þjálfaði íslenska landsliðið á árum áður, í gegnum golfklúbbinn á Akureyri. John Garner heimsækir golfklúbbinn enn, þrisvar til fjórum sinnum yfir sumarið og kennir 10 – 15 ára krökkum.
,,Golfdagurinn heppnaðist mjög vel og voru fjórir nemar á staðnum og við áttum frábæran dag saman.“ Golfkennaranemarnir fóru yfir grunnatriðin í golfi og skiptu svo þátttakendum í nokkra hópa þar sem mismunandi æfingar voru gerðar. Fyrirhugað er að golfkennaranemarnir komi a.m.k. tvisvar sinnum til viðbótar í sumar til að halda þátttakendum við efnið.
,,Vonandi er þetta byrjunin á enn frekari uppbyggingu hjá GÓS og að íbúar í sveitarfélaginu átti sig á hvað þetta er skemmtileg fjölskylduíþrótt, að ég tali nú ekki um hvað við erum heppin að hafa golfvöll í fallegu umhverfi þar sem er aldrei biðröð í rástíma,“ segir Jóhanna að lokum.
/LAM
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.