Margir tónleikar framundan hjá Karlakórnum Heimi
Karlakórinn Heimir er á faraldsfæti um þessar mundir. Á sunnudaginn var hélt kórinn tvenna tónleika, í Siglufjarðarkirkju og á Hofsósi og var aðsókn með ágætum. Efnisskrá tónleikanna var að hluta til afmælisdagskrá sem flutt var á síðasta ári í tilefni af 90 ára afmæli kórsins þar sem þeir Agnar Gunnarsson og Björn Björnsson röktu feril kórsins á gamansömum nótum og nokkrir kórfélagar ásamt leikurum úr Leikfélagi Hofsóss túlkuðu nokkur atriði úr sögu hans.
Um miðjan mánuðinn er svo ætlunin að halda í suðurátt og verður sungið í Langholtskirkju að kvöldi föstudagsins 15. mars. Sérstakur gestur á þeim tónleikum verður Elmar Gilbertsson sem syngur um þessar mundir í La Traviata í Hörpu. Þaðan verður haldið austur fyrir fjall og haldnir tvennir tónleikar á laugardegi, í Skálholtskirkju og í Selfosskirkju. Gísli Árnason, formaður kórsins, vill þó ekki taka neina ábyrgð á trúarhita sinna manna þó þrjár kirkjur séu heimsóttar í ferðinni, heldur segir hann að nýrri kirkjurnar séu undantekningalítið afbragðs góðar til tónlistarflutnings.
Í byrjun apríl er svo ætlunin að halda í Húnaþing og sækja Hvammstanga heim og að vanda verður kórinn með tónleika á Sæluviku í byrjun maí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.