Litadýrð á degi íslenskrar náttúru
Í dag er dagur íslenskrar náttúru. Mörgum finnst náttúran aldrei jafn falleg og á þessum árstíma þegar haustlitirnir skarta sínu fegursta. September hefur boðið upp á nokkra dýrðardaga hvað veðrið snertir og þá er gaman að fanga með myndavélinni. Meðfylgjandi myndir tók blaðamaður Feykis í Skagafirði í gær, og gefa þær smá innsýn í góða veðrið og haustlitina.
„Fátt hefur mótað íslenska þjóð eins og náttúran. Íslendingar hafa aðlagað líf sitt samspili elds og ísa, dyntóttum veðurguðum og kröftugum sjávarföllum. Um leið hafa þeir notið alltumlykjandi náttúrufegurð og haft lífsviðurværi sitt af ríkulegum gjöfum náttúrunnar.
Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert og eru einstaklingar, skóla, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök hvött til að hafa daginn í huga í stafsemi sinni,“ segir í tilkynningu frá Umhverfisráðuneytinu.
Þann 16. september 2010, á 70 ára afmæli Ómars Ragnarssonar, var ákveðið að sá dagur yrði upp frá því tileinkaður íslenskri náttúru. Felst í þessu viðurkenning á framlagi Ómars til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru sem og allra þeirra sem lagt hafa sitt af mörkum til að fræða um íslenska náttúru. Markmiðið með degi íslenskrar náttúru er að beina sjónum landsmanna að hinni einstöku náttúru landsins, gögnum hennar og gæðum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.