Kótelettukvöld Lionsklúbbanna í Skagafirði
Á laugardagskvöldið var haldið heljarmikið kótelettukvöld í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Að þvi stóðu Lionsklúbbarnir fjórir í Skagafirði, Lionsklúbburinn Björk, Lionsklúbburinn Höfði, Lionsklúbbur Sauðárkróks og Lionsklúbbur Skagafjarðar en verkefnið er unnið í tilefni af því að á þessu ári fagnar Lionshreyfingin 100 ára afmæli sínu. Eins og Feykir.is hefur greint frá áður var tilgangurinn að safna fé til að setja upp skynörvunarherbergi í Iðju, dagþjónustu fatlaðra á Sauðárkróki.
Skemmst er frá því að segja að kvöldið heppnaðist með miklum ágætum. Fjöldi fólks, rúmlega 300 manns, mætti í Íþróttahúsið og lagði málefninu lið og meðan fólkið kom sér fyrir lék Aðalsteinn Ísfjörð ljúfa tóna á nikkuna sína. Í upphafi dagskrár flutti Aðalheiður Arnórsdóttir úr Lionsklúbbnum Björk skemmtilegt ávarp og veislustjórinn, Agnar H. Gunnarsson á Miklabæ, meðlimur í Lionsklúbbi Skagafjarðar, stýrði veisluhöldum af sinni alkunnu snilld. Mannfjöldinn gæddi sér svo á ljúffengum kótelettum með öllu tilheyrandi; kartöflum og grænum baunum, rauðkáli og rabbarbarasultu ásamt bræddu lauksmjöri sem gerði meltingarveginn sérlega móttækilegan fyrir því að krásirnar rynnu ljúflega niður.
Þegar allir höfðu mettað sinn maga hófst skemmtidagskrá og var það hæfileikafólk úr héraði sem lék listir sínar. Þar kenndi ýmissa grasa, flutt voru gamanmál, ungur og efnilegur harmonikkuleikari lék skemmtilega lagasyrpu, nokkrir frábærir söngvarar fluttu sín lög og austan Vatna brandarakarlar stauluðust á sviðið.
Fjölmargir aðilar, jafnt fyrirtæki sem einstaklingar, hafa lagt Lionsklúbbunum lið í þessu veglega verkefni og voru þeim færðar bestu þakkir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.