Keilir opnar starfsstöð á Sauðárkróki
Flugakademía Keilis hefur opnað starfsstöð fyrir nemendur í verklegu atvinnuflugnámi á Alexandersflugvelli í Skagafirði en skrifað var undir samstarfssamning við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í gær. Reiknað er með að um tuttugu nemendur og 2-3 kennsluvélar verði að jafnaði á flugvellinum allt árið um kring. Bæði nemendur og kennarar, sem undanfarið hafa verið staðsettir á Sauðárkróki, eru yfir sig ánægðir með bæði innviði og aðstöðu til flugnáms í Skagafirði, en þar eru kjöraðstæður til verklegrar flugkennslu, að sögn Arnbjörns Ólafssonar, markaðsstjóra Keilis.
Í tilefni dagsins mætti skólinn með þriðjung flugvéla sinna, þar af stolt flotans DA42 NG New Generation, fjögurra sæta kennslu- og einkaflugvél en sú kennsluvél er hin fullkomnasta á landinu og eina vélin í þeim flokki sem hefur vottun til flugs í ísingarskilyrðum. Gestir og gangandi var boðið að skoða vélarnar og flugnámið kynnt fyrir áhugasömum. Veðurguðirnir voru í sínu besta skapi því sólin skein glatt og veðrið stillt.
Á heimasíðu Keilis kemur fram að mikill áhugi sé á atvinnuflugnámi hérlendis, bæði meðal Íslendinga og erlendra nemenda, og hefur Flugakademía Keilis vaxið hratt á undanförnum árum. Þannig tvöfaldaðist fjöldi kennsluvéla við skólann á árunum 2014 - 2018, úr sjö í fjórtán flugvélar, og fjölgaði atvinnuflugnemum í á þriðja hundrað. Eftir kaup Keilis á Flugskóla Íslands fyrr á árinu er fjöldi kennsluvéla orðinn yfir tuttugu og skólinn orðinn einn stærsti flugskóli á Norðurlöndunum.
Samstarf við FNV
Með samstarfi Flugakademíu Keilis og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra fá nemendur aðgang að fullkominni námsaðstöðu skólans og hýsingu á heimavist FNV á meðan þeir stunda nám sitt fyrir norðan. Þá munu skólarnir skoða enn nánara samstarf í framtíðinni meðal annars með möguleika á flugtengdu námi til stúdentsprófs og fjarnámsaðstöðu fyrir nemendur sem leggja stund á bóklegar greinar atvinnuflugnámsins í fjarnámi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.