Hamrarnir fengu á baukinn
Leikið var í Mjólkurbikar kvenna á Króknum í gærkvöldi en þá mættust lið Tindastóls og Hamranna frá Akureyri. Lið Tindastóls leikur í Inkasso-deildinni í sumar en Hamrarnir féllu úr þeirri deild síðasta haust. Það mátti því reikna með að Akureyrarstúlkurnar næðu að standa upp í hárinu á Stólastúlkum en annað kom á daginn því leikurinn var lengstum einstefna að marki gestanna. Lokatölur 8-1 og lið Tindastóls flaug áfram í næstu umferð.
Þetta var fyrsti heimaleikur Jackie Altschuld og Lauren Amie Allen í Tindastólstreyjunni og virðast þær báðar vera fínar viðbætur í flott Tindastólslið. Lauren hafði að vísu lítið að gera í markinu en Jackie notaði boltann vel, er með fína tækni og gott auga fyrir spili.
Leikið var á gervigrasinu í logni og ríflega tíu stiga hita í kvöldsólinni. Að sjálfsögðu var það Murielle Tiernan sem gerði fyrsta markið af harðfylgi á 11. mínútu og hún bætti öðru marki við á 16. mínútu. Það voru frænkurnar María Dögg og Vigdís Edda sem gerðu næstu mörk Tindastóls á 25. og 28. mínútu og Murr náði þrenunni rétt fyrir hálfleik. Lið Tindastóls virkaði firnasterkt, stelpurnar kraftmiklar og Hömrunum hálfgerð vorkunn að þurfa að eiga við þær.
Vigdís Edda bætti við öðru marki sínu á 52. mínútu og á 62. mínútu gerði Jackie mark úr víti. Eftir það kallaði Johanna Henriksson, markvörður Hamranna, á neyðarfund í vítateig gestanna þar sem málin voru aðeins rædd áður en leikur skildi hafinn á ný. Skondin uppákoma en sennilega hafa þær sammælst um að berja í brestina. Reyndar virtist upplegg Hamranna í síðari hálfleik vera að spila boltanum sem næst eigin marki og lokka Stólastúlkur sem fremst á völlinn, negla svo boltanum inn fyrir vörn Tindastóls og vona það besta. Þetta varð þó oftar en ekki til þess að Stólastúlkur unnu boltann í sóknarstöðu og sköpuðu hættu.
Á 68. mínútu fullkomnaði Vigdís Edda þrennuna með laglegu marki en það voru gestirnir sem áttu lokaorðið þegar Rakel Sjöfn Stefánsdóttir klóraði í bakkann á 87. mínútu eftir að hafa sloppið inn fyrir vörn Tindastóls. Lokatölur 8-1 og bíða Stólastúlkur nú spenntar eftir að sjá hver andstæðingur liðsins verður í næstu umferð.
Feykir minnir á heimaleik hjá stelpunum um helgina en lið FH, sem spáð er einu af toppsætum deildarinnar í sumar, mætir á Krókinn á sunnudaginn og hefst leikurinn kl. 15:00. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.