Fimmtíu árunum fagnað
Krabbameinsfélag Austur-Húnvetninga hélt veglega afmælisveislu í tilefni af 50 ára afmæli félagsins sl. sunnudag, þann 3. mars. Fjölmargir velunnarar félagsins mættu í Félagsheimilið á Blönduósi og samfögnuðu félaginu sem starfað hefur af miklum krafti í hálfa öld.
Dagskrá samkomunnar samanstóð af tónlist og töluðu máli. Sveinfríður Sigurpálsdóttir, formaður félagsins, rakti sögu þess í stuttu máli og ávörp fluttu þær Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands og Halldóra B. Sævarsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Tónlistaratriðin voru ekki af lakara taginu, Hugrún Lilja Pétursdóttir lék á píanó, trúbadorinn Friðrik Halldór söng af innlifun og hjónin Hugrún og Jonni frá Skagaströnd ásamt bakraddafélögum sínum, Siggu og Dóra, fluttu nokkur hugljúf lög. Botninn í dagskrána sló svo Kór Íslands, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps sem söng af sinni alkunnu snilld.
Að tónlistarflutningi loknum voru allir flytjendur leystir út með Mottumarssokkum. Kynningu dagskrár annaðist Birgitta H. Halldórsdóttir. Að dagskrá lokinni var svo boðið upp á glæsilegt veislukaffi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.