Dásamlega Drangey Music Festival
Drangey Music Festival fór fram í gærkvöldi á Reykjum á Reykjaströnd. Er þetta annað árið í röð sem Viðburðaríkt, Sviðsljós og Drangey Tours standa fyrir þessum metnaðarfullu tónleikum og líkt og í fyrra virtust veðurguðirnar hafa talsverða velþóknun á framtakinu því í gær skall á með logni og einstakri blíðu út við ysta haf.
Veðurspáin var reyndar ekki upp á marga fiska framan af vikunni og allt fram á síðustu stundu þannig að veðrið kom skemmtilega á óvart. Enda var margt um manninn og stemningin góð á Reykjum.
Fyrst á svið var Áróra, dóttir Árna Gunn og Elinóru, og söng hún og spilaði á kassagítar. Áróra er efnileg og örugg þrátt fyrir ungan aldur. Á eftir henni kom gítardrottningin Beebee ásamt hljómsveit sinni The Bluebirds. Beebee, sem heitir Brynhildur Oddsdóttir og einhverjir gætu kannast við sem gítarleikara í bandi Bubba Morthens, spilaði blúsrokk sem áheyrendur kunnu vel að meta. Auk þess að taka nokkur frumsamin lög renndi hún sér í All Along the Watchtower að hættti Hendrix og Give Me a Reason sem Portishead gerði vinsælt. Hún endaði svo með því að taka nýja lagið Out of the Dark.
Næstir á svið voru þeir fóstbræður Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson, eða bara Stebbi og Eyfi. Þeir kunna flestum öðrum betur að syngja saman eins og þeir hafa marg sannað, en Eyfi sá um kassagítarinn og Stebbi sló á létta strengi milli laga. Þeir tóku m.a. lögin Ég lifi í draumi, Góða ferð, Álfheiður Björk, Undir þínum áhrifum og í lokin skelltu þeir sér í Nínu með góðri hjálp fólksins í brekkunni. Þá ljóstraði Eyfi upp því leyndarmáli að Stebbi yrði 50 ára daginn eftir tónleikana og því var afmælissöngurinn sunginn fyrir örlítið vandræðalega poppstjörnu.
Króksarinn Sverrir Bergmann og hljómsveitin Albatross voru í góðum gír og það verður að segjast eins og er að tölvuleikjagúrúinn fór á algjörum kostum. Raddsviðið virðist hreinlega endalaust og það var ekkert verið að spara raddböndin í gærkvöldi. Meðal laga sem þeir félagar tóku voru Bon Jovi slagarinn Án þín, Ég fer ekki neitt, Kumbh Mela og Þjóðhátíðarsöngurinn Þar sem hjartað slær. Það þarf meira en meðalmann í þessi lög og Sverrir skilaði öllu af fádæma öryggi.
Það er sennilega engu logið þegar fullyrt er að Úlfur Úlfur er vinsælasta hljómsveit landsins þessi misserin. Helgi Sæmundur og Arnar Freyr gætu varla verið ólíkari en samt svo fullkomnir saman. Þeir voru á DMF í fyrra, þá nýbúnir að gefa út diskinn sinn Tvær plánetur, og virtust hálf hissa á vinsældum sínum. Þeir voru góðir í fyrra – kannski pínu hráir – en nú voru þeir öryggið uppmálað. Yngri kynslóðin kann snilldar rapp þeirra utanbókar og það voru allir með á nótunum – jafnvel þeir sem eldri eru og hefðu sennilega fussað og sveiað yfir öllu rappi fyrir ári síðan. Þeir hófu leik á 100.000 með sínum snotru tilvitnunum í Sauðárkrók, Fjörðinn og Tindastól og síðan var rappað út í eitt. Þeir frumfluttu tvö lög sem lofuðu sannarlega góðu upp á framhaldið, tóku nýja smellinn Ofurmenni og kláruðu síðan prógrammið með Á meðan ég er ungur og Brennum allt.
Aðalnúmer kvöldsins var Retro Stefson sem var reyndar vorkunn að þurfa að fylgja í fótspor Úlfur Úlfur. Það tók smá tíma að kveikja í tónleikagestum en það verður ekki af Stefson fjölskyldunni skafið að þar á bæ kunna menn að koma öllum upp á afturlappirnar. Unnsteinn Manuel og Haraldur Ari hoppuðu og skoppuðu um allt svið (og jafnvel út í móa) í takt við sinn hressandi tónlistarbræðing sem samanstendur af diskói, rappi og rokki. Meðal laga sem þeir tóku voru Glow, Qween, Kimba, She Said og nýi sumarsmellurinn Skin.
Frábæru festivali lauk hálf eitt um nóttina og hafði þá staðið í rúma fjóra tíma. Aðstæðar voru fáránlega góðar og í raun betri en í fyrra þegar norðangola lét á sér kræla eftir mesta hitadag sumarsins. Nú var stillt og hlýtt allt kvöldið og ýmsir veltu fyrir sér hvaða díl Áskell Heiðar, Guðbrandur Ægir og Drangeyjarfeðgar væru eiginlega með við þann sem stórnar veðrinu. Þá er rétt að geta þess að tæknimál tónleikanna voru í höndum snillingsins Guðbrandar Ægis Ásbjörnssonar hjá Sviðsljósum en Sviðsljós höfðu veg og vanda að sviðssetningu, lýsingu og hljóði og þar var allt til mikillar fyrirmyndar eins og við mátti búast.
Megi Drangey Music Festival lengi lifa!
- Myndirnar sem fylgja eru birtar með góðfúslegu leyfi Viðburðaríks og Hinna sömu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.