Brunavarnir Skagafjarðar með nýjan og fullkominn tækjabíl
Á dögunum fengu Brunavarnir Skagafjarðar afhenta nýja slökkvibifreið og var því fagnað með opnu húsi á slökkvistöðinni á Sæmundargötu á Sauðárkróki fyrr í dag. Var fólki boðið að skoða nýja slökkvibílinn ásamt því að kynna sér starfsemi og búnað slökkviliðsins. Að sjálfsögðu var hellt upp á í tilefni dagsins og myndarleg rjómaterta á boðstólum.
Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri, segir um mikla búbót að ræða. Bíllinn kemur að mestu klár frá Póllandi, 450 hestafla Skania bifreið með drifi á öllum hjólum og sæti fyrir fimm manns í húsi: „En ekki þrjá inni og tvo úti, eins og var á eldri bílnum, þannig að um gríðarlega viðbót er að ræða hjá okkur,“ segir Svavar í gamansömum tón en bíllinn er það tæki sem fyrst fer út úr húsi á vettvang aðgerða, hvort sem það er bruni, umferðarslys eða eiturefnaleki, svo eitthvað sé nefnt.
Dælugetan bílsins er upp að 4000 l að lágmarki á mínútu, með 4000 lítra tank sem er tvöföldun miðað við gamla bílinn. Þá er hann útbúinn klippum sem notaðar eru til björgunar á fólki úr bílum eftir umferðarslys ef svo ber undir.
„Ég ætla ekki að líkja þessum saman við hinn bílinn. Gríðarlegur munur!. Ég vil þakka sveitarstjórnarfólki fyrir góðan stuðning og skilning því það er ekki sjálfgefið að svona verkefnigangi upp. Margir sem þurfa að koma að því en við höfum mætt miklum skilningi með þetta enda þurfa þessir hlutir að vera í lagi.“
Við athöfnina afhenti Gísli Sigurðsson, varaformaður byggðaráðs, Svavari Atla lyklana að bílnum formsins vegna og sagði að hann vonaðist til að bílinn þyrfti að nota sem minnst. Bíllinn hefur þá þegar sannað notagildi sitt því á dögunum var hann notaður í útkalli þegar eldur logaði í bílaverkstæði KS.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.