Brotlending hjá Vængjum Júpíters í þokunni á Króknum
Tindastóll spilaði fyrsta leik sinn í síðari umferð Íslandsmótsins í 3. deildinni í kvöld en þá komu Vængir Júpíters alla leið úr Grafarvoginum. VJ var eina liðið sem hafði sigrað Stólana í fyrri umferðinni en þeir brotlentu á Króknum, fengu 4-1 skell í ágætum fótboltaleik. Lið Tindastóls endurheimti því toppsæti deildarinnar af Víðismönnum.
Leikurinn fór frekar rólega af stað og virtust gestirnir helst hafa það á dagskránni að pirra leikmenn Tindastóls með allskyns smá brotum. Vængirnir ógnuðu lítið en Tindastólsmenn voru skeinuhættir í föstum leikatriðum og það var einmitt eftir hornspyrnu á 28. mínútu sem Stólarnir náðu forystunni. Bjarki Már Árnason, fyrirliði og skallatæknir, stökk þá hæst á fjærstöng og skallaði boltann niður í bláhornið. Eftir þetta tóku heimamenn völdin og á 37. mínútu bættu þeir við öðru keimlíku marki. Nú var það hinn miðvörðurinn, Fannar Kolbeinsson, sem skallaði inn aukaspyrnu á nærstöng. Staðan 2-0 og allt stefndi í öruggan sigur. Stólarnir sofnuðu hins vegar eftir markið og fengu mark strax í bakið. Hjörleifur Þórðarson gerði þá mark úr ódýru víti eftir slakan varnarleik Tindastólsmanna. Staðan 2-1 í hálfleik.
Strákarnir bættu fyrir þetta í fyrstu sókn síðari hálfleiks þegar þeir spiluðu sig laglega í gegnum vörn gestanna, Kenneth Hogg komst á auðan sjó og skoraði af miklu öryggi. Eftir þetta féllu Stólarnir strax til baka og gestirnir höfðu yfirhöndina lengstum í síðari hálfleik, voru grimmari á boltann og vinnusamari. Þeir fengu þó fá færi en áttu þó tvö þrumuskot í stöng nánast upp úr ekki neinu. Tindastólsmenn áttu þó fjölda góðra skyndisókna þar sem boltinn gekk hratt og vel á milli manna en það var þó ekki fyrr en á 83. mínútu sem þeir gerðu endanlega út um leikinn eftir gullfallega sókn. Benjamín Gunnlaugarson fékk þá sendingu inn fyrir vörn Vængjanna, sem var þá orðin einskonar Vængjahurð, og kappinn vippaði laglega yfir markmann VJ og í markið. Eftir þetta var mesta púðrið úr gestunum og Stólarnir klaufar að bæta ekki við fleiri mörkum í lokin.
Tindastólsliðið lék í heild vel en líkt og í síðasta leik hefði liðið mátt reyna að halda boltanum betur í síðari hálfleik. Það er þó að sjálfsögðu skiljanlegt að reynt sé að draga andstæðingana fram á völlinn og beita skyndisóknum. Benni var í stuði í kvöld og lék Vængina oft grátt en það voru allir að skila sínu og lið Tindastóls einfaldlega betra fótboltalið en Vængir Júpíters.
Næsti heimaleikur er nú strax á miðvikudag en þá kemur lið Dalvíkur/Reynis í heimsókn. Nú eru Tindastóll og Víðir með 11 stiga forskot á næsta lið en ekki hafa öll liðin enn lokið leik í 10. umferð. Það er því líklegt að Einherji verði níu stigum á eftir Stólunum og Víði þegar þeim leikjum er lokið og staða toppliðanna því verulega vænleg þegar keppni er rúmlega hálfnuð í deildinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.