Benedikt búálfur í Bifröst
10. bekkur Árskóla setur upp leikverkið Benedikt búálfur um þessar mundir í Bifröst. Efni leikritsins er flestum kunnugt enda hefur leikritið og bækurnar notið mikilla vinsælda hjá yngri kynslóðinni í gegnum árin. Segir frá Dídí mannabarni sem finnur búálf heima hjá sér og ævintýrum sem þau lenda í.
Benedikt búálfur býður Dídí með sér til Álfheima þar sem þau lenda í miklum ævintýrum, kynnast Jósafat mannahrelli, drekanum Daða, Aðalsteini álfakonungi, drottningu hans og fleirum. Í Álfheimum er hins vegar ekki allt með felldu því svartálfakonungurinn Sölvar súri hefur tekið upp á því að ræna Tóta tannálfi sem veldur miklum vandræðum. Dídí og Benedikt þurfa að leggja í ævintýraferð til að bjarga Álfheimum ásamt drekanum Daða.
Bergmann Guðmundson, kennari í Árskóla, segir verkið hafa margoft verið sett upp og kannist flestir við uppátæki Benedikts. „Í leikritinu er mikið um söng, dans, glaum og gleði og mælum við hiklaust með því að sem flestir leggi leið sína í Bifröst og berji þetta skemmtilega verk augum og leggi sitt af mörkum til stuðnings Danmerkurferðar 10.bekkjar Árskóla,“ segir Bergmann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.