Átta sigrar í röð hjá Tindastólsmönnum
Það var leikið í rjómablíðu á Sauðárkróksvelli í dag en þá fengu Tindastólsmenn liðsmenn Kára af Akranesi í heimsókn. Lið Tindastóls var sterkari aðilinn í leiknum og uppskar sanngjarnan 1-0 sigur þrátt fyrir nokkra pressu gestanna undir lok leiks.
Sem fyrr segir voru aðstæður frábærar á Króknum í dag, stillt og hitinn um 20 gráður. Kannski var veðrið of gott því að það virtist vanta kraftinn í leikmenn. Stólarnir fóru þó vel af stað og hefðu átt að komast yfir á fyrsta stundarfjórðungnum en síðan gerðist fátt markvert utan það að Stólarnir komu boltanum í mark Kára en voru dæmdir rangstæðir. Brentton Muhammad hafði það náðugt í marki Tindastóls þar sem gestirnir sköpuðu lítið. Staðan í hálfleik 0-0.
Eina mark leiksins leit dagsins ljós á 49. mínútu en Stólarnir höfðu þá haft boltann nánast frá því að leikurinn var flautaður á. Ingvi Hrannar tók innkast til móts við vítateig Kára, boltinn barst til Konna sem lagði boltann snyrtilega inn fyrir vörn gestanna og þar var Kenneth Hogg mættur og kom boltanum í mark gestanna í annarri tilraun eftir að Skarphéðinn Magnússon hafði varið frá honum.
Eftir þetta bökkuðu Stólarnir talsvert og létu gestina hafa fyrir hlutunum. Þeir sköpuðu lítið en Stólarnir voru klaufar að klára ekki leikinn eftir að hafa fengið nokkur ágæt færi til þess. Kárarnir fengu nokkrar aukaspyrnur talsvert frá marki Stólanna síðustu mínútur leiksins og dældu boltum inn í teig en líkt og svo oft áður þá skölluðu Bjarki og félagar þetta meira og minna allt í burtu. Í uppbótartíma hefði þó Jón Björgvin Kristjánsson getað hegnt Stólunum þegar hann fékk frían skalla á fjærstöng en hann skallaði boltann fyrir markið og naumlega framhjá.
Lið Tindastóls er að spila vel um þessar mundir, vörnin er þétt og sóknin frísk. Rétt eins og gegn Þrótti Vogum fyrr í sumar þá áttu þeir þó að vera búnir að gera út um leikinn í stað þess að bjóða hættunni heim í lokin. Öfugt við síðustu sumur hafa andstæðingarnir ekki náð að hegna Stólunum þegar tækifæri hafa gefist. Í dag hefðu áhorfendur kannski viljað sjá liðið halda boltanum betur, enda eru fínir spilarar á miðjunni og kannski óþarfi að klára allar sóknir leifturhratt.
Nú er fyrri umferð 3. deildar lokið og Tindastóll og Víðir með góða forystu í fyrstu tveimur sætunum, bæði með 24 stig en Stólarnir með hagstæðari markatölu. Vængir Júpíters eru í þriðja sæti með 16 stig og þeir mæta á Krókinn næstkomandi föstudagskvöld og sigur gegn þeim væri frábært veganesti inn í síðari umferðina.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.