Afmælissýning Kvenfélags Akrahrepps
Í tilefni aldarafmælis Kvenfélags Akrahrepps var sett upp handverkssýning í Héðinsminni 5. og 6. október síðastliðinn á verkum félagskvenna lífs og liðinna. Þátttaka í sýningunni var einstaklega góð og 37 konur áttu þarna muni.
þar mátti sjá útsaum – vefnað – postulín – útskurð – málverk – hekl – bútasaum – renndar skálar – litað band og efni – fatasaum – prjónles og jólaskraut. Þarna var meðal annars lítill flatsaumsdúkur saumaður fyrir 89 árum. Hann saumaði Sigurlína Magnúsdóttir á Kúskerpi, fermingarvorið sitt 1930 ( f. 1916 – d. 1998 ). Elsta stykkið á sýningunni var rúmábreiða hekluð úr einspinnu bandi, trúlega þelbandi í sauðalitunum í ýmsum litbrigðum. Þannig unnin að heklaðir voru 198 ferningar og þeir síðan saumaðir saman. Þessi rúmábreiða var á heimilisiðnaðarsýningu í Reykjavík árið 1921.
Konan sem vann þessa rúmábreiðu var Kristín Guðmundsdóttir húsfreyja á Frostastöðum, f. 31. janúar 1862 í Gröf, Laxárdal í Dalasýslu, d. 8. febrúar 1955 á Frostastöðum. Fyrir rúmábreiðuna fékk hún Heiðursskjal frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands.
Á sýningunni var boðið upp á kaffi og konfekt og bókin Blómarósir í Blönduhlíð var til sölu.
Félagið þakkar öllum þeim sem þarna komu við sögu.
Fyrir hönd Kvenfélags Akrahrepps.
Helga Bjarnadóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.