Heyskapartíð verið erfið síðan um miðjan júlí
„Eins og alltaf eru aðstæður misjafnar og staða bænda því misjöfn. Jú, árferði hefur verið óvenjulegt á þessu svæði í vor og sumar. Það var víða mikill klaki í jörð sem fór mjög seint og gerði bændum erfitt fyrir með vorverk s.s. jarðvinnslu og sáningu í flög sem varð fyrir vikið óvenju seint á ferðinni. Það var líka fremur kalt í veðri og úrkomusamt sem olli því að jörðin hlýnaði hægt og spretta grasa hæg. Sláttur hófst því heldur seinna en flest undanfarin ár. Spretta hefur hins vegar almennt verið góð þegar liðið hefur á sumar og er háarspretta góð,“ sagði Eiríkur Loftsson, ráðunautur hjá RML, þegar Feykir spurði hann út í stöðuna hjá bændum en slæm tíð hér Norðanlands hefur verið talsvert í umræðunni og þá áhrif hennar á sprettu og slátt.
Hvernig hefur bændum gengið að ná heyjum? „Í byrjun heyskapar var tíðarfar fremur hagstætt til þess arna og náðu þá margir bændur góðum heyjum á því stigi sem þeir sækjast eftir. Frá því um miðjan júlí hefur heyskapartíð hins vegar verið erfið þó að inn á milli hafi komið góðir þurrkdagar. Heyskapur hefur því gengið hægt hjá mörgum og hey ekki eins þurr og margir vildu hafa þau og í sumum tilfellum kannski orðin of mikið sprottin. Sumstaðar eru túnin það blaut að erfitt er að fara um þau. Það blasir við að sums staðar verði erfitt að komast um nýræktir frá í vor og grænfóður-akra til að slá og heyja nema það fari að þorna um svo einhverju nemi.“
Hvernig finnst þér útlitið vera fyrir veturinn, heldurðu að það séu margir bændur í vandræðum? „Ég er ekki nógu kunnugur því til að gera mér góða grein fyrir því. Sums sstaðar voru túnin skemmd af kali í vor og uppskera því minni en vænta mátti og fyrningar voru einnig minni. Heyskap er ekki lokið og of fljótt að segja til um hvort einhverjir þurfi að minnka ásetning. Í þeim tilvikum sem hey eru mikið sprott-in og meira en til stóð gæti verið skynsamlegt að taka heysýni og láta mæla innihald þeirra.“
Feykir hefur fregnað að til dæmis út að austan í Skagafirði hafi bændur brugðið á það ráð að færa göngur og réttir aftur um viku frá því sem venjan er til að freista þess að klára heyskap áður en búfénaður kemur af fjalli.
Hvernig hljómar draumahaustið? „Þurrt og sólríkt og í fyrstu án næturfrosta,“ segir Eiríkur að lokum. /óab
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.