Framtíðin björt á Syðsta-Mói
Feykir setti sig í samband við nokkra bændur og tók stöðuna á hvernig búskapurinn gengi í tíðinni og Kristófer Orri Hlynsson sem býr á Syðsta-Mói í Fljótum ásamt Söru Katrínu konunni sinni og tveimur dætrum er fyrstur til svars. Þau erum með um 300 fjár nokkrar holdakýr og hross. Samhliða búskapnum starfar Kristófer á kúabúinu Hlíðarenda í Óslandshlíð og Sara í útibúi KS Ketilási, en hún er í fæðingarorlofi þessar stundir.
Hvernig gengur í sveitinni? „Það gengur nokkuð vel miðað við aðstæður og tíðarfar. Rigningadagarnir í sumar hafa verið nýttir í uppgerð á fjárhúsunum. Skipta um allt gólf og setja upp gjafagrindur til að auðvelda vinnuhætti,“ segir Kristófer.
Nú er tíðarfarið búið að vera alls konar í sumar, hvernig er staðan hjá ykkur? „Þetta vor og sumar er búið að vera merkilegt veðurfarslega séð, hretið í júní, klakinn sem var í jörðu fram eftir öllu, há grunnvatnsstaða í jarðvegi og rigningarnar og kuldinn nú í ágúst.“ Kristófer segir stöðuna ágæta miðað við allt og telur hann allt um 2-3 vikum eftirá miðað við venjulegt árferði.
Kristófer segir fyrri slátt hafa verið töluvert seinni í ár en undanfarin ár og þegar viðtalið var tekið þá er hann ekki búinn með heyskap en þó segist hann nokkuð rólegur þar sem hann er búinn að ná góðum heyjum fyrir fengieldi og sauðburð, hitt verður að bíða fram að næsta þurrk sem hlýtur að fara að koma. Sprettan er almennt ágæt en mikill uppskerubrestur er víða í Fljótum sökum kals í túnum.
Sérðu fram á minni hey? Ég sé fram á meira hey en síðustu ár þar sem ég slæ mun fleiri hektara en heygæðin verða eitthvað lakari.
Staðan á seinni slætti? Það verður ekkert sleginn seinni sláttur í ár.
Eruð þið bjartsýn á framhaldið? „Já ég myndi segja það, þrátt fyrir miklar áskoranir. Veðrið og öfgakennt veðurfar tekur mig ekki úr jafnvægi en erfitt rekstrarumhverfi og þar helst háir stýrivextir eru mín mesta áskorun þessa dagana. Annars er framtíðin björt á Syðsta-Mói,“ segir Kristófer að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.