Bjart framundan hjá sauðfjárbændum
Næsti bóndi er Birgir Þór Haraldsson sem er fæddur og uppalin á Sauðárkróki og býr með Hörpu Birgisdóttur frá Kornsá og saman eiga þau tvo drengi þá Ágúst Inga og Bjarka Fannar. Í dag eru þau bændur á Kornsá í Vatnsdal og þar eru 600 vetrarfóðraðar ær og 80 hross. Birgir lauk námi í grunndeild húsasmíða við FNV og Búfræðiprófi frá LBHÍ.
Birgir segir það nú samt vera skóla lífsins sem alltaf kennir manni mest. „Ég man þegar ég hóf nám við grunndeild húsasmíða og hitti Jóhann Gunnlaugson, hann sagði mér að ég myndi læra meira á fjórum dögum í vinnunni en á þessum fjórum vetrum við FNV. Það voru ýmis sannindi í því hjá Jóhanni.“
Hvernig gengur í sveitinni? „Það gengur bara vel utan við tíðarfarið en því er erfitt að stjórna,“ segir Birgir. Árið 2019 voru endurnýjuð gólf og innréttingar í fjárhúsunum og núna eru þau að byggja við fjárhúsin.
Tíðarfarið er búið að vera alls konar í sumar, hvernig er staðan hjá ykkur, var fyrri sláttur seinni í ár en fyrri ár? „Fyrri slætti er ekki lokið þetta árið, hér er engjaheyskapur eftir en það hefst af fyrir göngur,“ Spuður út í muninn á sprettunni segir Birgir sprettuna vera töluvert minni, þónokkuð hafi verið um kalbletti í túnum og féð lengur í túninu en í venjulegu ári.
Sérðu fram á minni hey? „Já það er minni heyfengur eftir sumarið en við erum ágætlega heyjuð fyrir veturinn.“
Staðan á seinni slætti? „Seinni slætti er lokið þetta árið.“
Eruð þið bjartsýn á framhaldið? „Það er bjart framundan hjá sauðfjárbændum eftir að jafnvægi komst á framboð og eftirspurn á lambakjötsmarkaði og afurðaverðið leitar upp á við í kjölfarið. Áhugi á búskap er mikill í kring um okkur og nýliðun nokkuð góð,“ segir Birgir að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.