Þú ert algjör rúða!
Hver er maðurinn? Valgerður Friðriksdóttir
Hverra manna ertu? Dóttir Friðriks Margeirssonar skólastjóra og Öldu Ellertsdóttur
Árgangur? 1962
Hvar elur þú manninn í dag? í Garðabæ
Fjölskylduhagir? Er einstök kona
Afkomendur? Heiðar Örn og Silja Rut. Svo er það Hákon Árni litli ömmuprinsinn minn.
Helstu áhugamál? Þetta týpíska, fjölskyldan, ferðlög, fjallgöngur og sund.
Við hvað starfar þú? Ég er bankastarfsmaður, vinn í MP banka.
Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.
Heima er ....................best.
Það er gaman.........................að vera orðin amma.
Ég man þá daga er........................Blueberry jam var aðal hljómsveitin á Króknum
Ein gömul og góð sönn saga..................
Ein lítil saga af okkur systkinum, ég var 7 ára, Margeir 9 ára og Palli 2 ára.
Ég og Margeir pössuðum Palla litla bróður okkar ansi oft í bernsku, en okkur fannst við vera búin að passa hann nóg og vorum orðin hundþreytt á honum.
Einn daginn tókum við okkur til og löbbuðum út Freyjugötu með Palla á milli okkar. Á leiðinni hittum við Matta Jóns sem spurði okkur hvert við værum að fara. “Við erum á leiðinni á fornbókasöluna” sögðum við með stolti. “Hvað ætlið þið að gera þar?” spurði hann okkur þá. “Við ætlum að selja Palla, hann er alltaf svo óþekkur!” sögðum við í kór.
Matta þótti þetta ágætt hjá okkur en sennilega hefur hann snúið okkur við heim aftur því Palli er enn í Hólavegsfjölskyldunni og við öll mestu mátar.
Spurning til þín.................... Hver eru skemmtilegustu mismælin sem þú hefur látið út úr þér?
Svar............ Ég held að það hafi verið þegar Heiðar sonur minn var að fara á kjólfataball í Versló. Hann kallaði í mig til að spyrja mig hvort hann væri ekki fínn í fötunum. Ég svaraði að bragði “þú ert algjör rúða” (en ég ætlaði að segja “þú ert alveg glerfínn”)
Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?
Nafn............. Hjördís Stefánsdóttir
Spurningin er..................Hvað varð um sameiginlega frímerkjasafnið okkar?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.