Störðum alvörugefnir út í kófið - Kjartan Hallur brottfloginn

Hver er maðurinn?
Kjartan Hallur Grétarsson.

Hverra manna ertu?
Ættaður úr Sléttuhlíð og Reykjavík en fluttist snemma á Melstað í Óslandshlíð þar sem Ásdís Kjartansdóttir, móðir mín, og Loftur Guðmundsson, fóstri minn, gerðu tilraun til að ala mig upp.

Árgangur?
Nægjusami árgangurinn. Skólastofan okkar var lengi frammi á gangi í Grunnskólanum á Hofsósi. Við vorum lengst af fjögur í 70-árganginum og það fór ekki mikið fyrir okkur.

Hvar elur þú manninn í dag?
Hef búið í Reykjavík síðustu áratugi.

Fjölskylduhagir?
Í sambúð með Berglindi Óladóttur en það er gaman að segja frá því að hún er einmitt frá Sauðárkróki og skyld honum Óla Arnari.

Afkomendur?
Sonur minn Kjartan Pétur er sautján og Kolka mín verður bráðum þriggja ára.

Helstu áhugamál?
Pennar, teiknipappír, skrifblokkir og allt sem því fylgir. Íslenskt mál, almennileg tónlist og knattspyrnuliðið Arsenal.

Við hvað starfar þú?
Undanfarin ár hef ég starfað á Íslensku auglýsingastofunni við yfirlestur, textaskrif, skissugerð og hugmyndasmíði.

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er ..................... atviksorð, svona yfirleitt.

Það er gaman......................... að segja: Það er gaman að segja frá því. — Helst á kolröngum stað.

Ég man þá daga er........................ eiginlega allir voru með varanlegt.

Ein gömul og góð sönn saga..................

Við Haukur í Bæ fórum stundum á Krókinn að skemmta okkur í gamla daga. Hann sá um aksturinn enda náði ég seint tökum á að keyra bíl og hef aldrei náð að mynda innilegt samband við farartæki. Haukur var hins vegar í góðu sambandi við Citroën-bifreið.

Ekki man ég hvaða hljómsveit var í Bifröst eða hvar við gistum en hitt man ég að morguninn eftir var skítaveður. Spáin var auk þess vond og við þurftum að haska okkur austur yfir, alveg sérdeilis skelþunnir. Við vorum ekki komnir langt, rétt farnir að silast upp á Hegranesið, þegar skall á blindbylur. Það sást ekki í næstu stiku nema af og til ef maður horfði nógu lengi.

Þarna sátum við Haukur og störðum alvörugefnir út í kófið – þegjandi í hvininum frá veðrinu og miðstöðinni. Meðan ég horfði á stikurnar birtast og hverfa fór ég að hugsa um hvernig Haukur færi að þessu. Ekki gat ég séð veginn. Hann lét hins vegar engan bilbug á sér finna, starði einbeittur gegnum framrúðuna og hélt áfram með báðar hendur á stýrinu. Mér þótti ferðin sækjast nokkuð vel og þorði ekki að trufla hann.

Að lokum gat ég þó ekki orða bundist og spurði bara hreint út hvernig honum tækist að halda bílnum á veginum. Hvernig var það hægt, bara út frá einni og einni vegstiku?

Haukur varð eitt spurningarmerki í framan meðan hann var að átta sig á því að ég hefði verið að tala í fúlustu alvöru. Svo benti hann mér á það eins rólega og honum var unnt (þ.e. með þónokkrum æsingi) að við hefðum ekki hreyfst úr stað í hálftíma.

Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Fer ekki að styttast í endurkomu Don Spirit?

Svar............ Það lengist a.m.k. ekki.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn............. Inga Heiða, sveitungi minn frá Miklabæ í Óslandshlíð.

Spurningin er.................. Ætlarðu í göngur í haust?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir