Hljóp beint í flasið á rabbabarakónginum
Hver er maðurinn? Hjördís Stefánsdóttir
Hverra manna ertu? Dóttir Stebba Dýllu (Stefáns Guðmundssonar) og Lillu (Hrafnhildar Stefánsdóttur), alin upp í Suðurgötunni.
Árgangur? 1962
Hvar elur þú manninn í dag? Bý í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd
Fjölskylduhagir? Er gift Kristni Jens Sigurþórssyni og eigum við tvær dætur
Afkomendur? Marta Mirjam fædd 1987 og Hrafnhildur fædd 1992.
Helstu áhugamál? Vera með fjölskyldu og vinum, lesa góðar bækur, skoða og uppgötva heiminn, rækta garðinn minn, dútla við ýmsa handavinnu og horfa á breska eðal-sakamálaþætti. Svo finnst mér voða gaman að viða að mér upplýsingum um matargerð og gera tilraunir í eldhúsinu og svo auðvitað að vera í sumarbústað stórfjölskyldunnar í Steinahlíð í gamla Lýdó. Svo nýtur maður þess bara sem lífið hefur upp á bjóða í það og það skiptið og þakkar fyrir að fá að vera til!
Við hvað starfar þú? Er lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.
Heima er ………………..alltaf best.
Það er gaman…………………….að koma í Skagafjörðinn !
Ég man þá daga er…………………… hápunktur sumarsins var að fara á hið árlega Stuðmanna-ball í Miðgarði, æskan var eilíf og engar voru áhyggjur morgundagsins.
Ein gömul og góð sönn saga………………
Ýmsar sögur koma upp í hugann, en ég held þó að ég deili þessari með ykkur, en hún er mér algjörlega ógleymanleg, ég ætla þó að sleppa því að nefna nöfn að mestu leyti.
Einn fagran sumardag vorum við Anna Jóna vinkona mín staddar í ytri bænum á Króknum en við höfum varla verð meira en svona 8 ára. Þá fékk Anna Jóna þá snildarhugmynd að við skyldum stela rabbabara úr garði sem þarna var. Ég féllst að sjálfsögðu á hugmyndina og sá ekkert að slíku, enda virtist enginn skortur á rabbabara í þessum garði. Nú Anna Jóna klifraði yfir girðinguna og ég stóð á verði. Hún kom svo fagnandi með eina 3 eða 4 rabbabaraleggi og þar sem við ætluðum að fara að gæða okkur á þessum forboðnu ávöxtum þá birtist eigandi garðsins eins og þrumuský með formælingar og blótsyrði á vörum svo eina útgönguleið okkar var að hlaupa af stað. Við hlupum og hlupum hringinn í kringum hús sem þarna var, en ég sleppti ekki rabbabaraleggjunum sem mér höfðu áskotnast. Einhverra hluta vegna tókst Önnu Jónu að stökkva ofan í kjallaratröppur sem þarna voru og fela sig þar, en ég hélt áfram að hlaupa, minnug þess að pabbi átti enn héraðsmetið í 3000 metrunum og ég var viss um að ég myndi slá það í þessu kapphlaupi við rabbabaraeigandann. Nú það tók ekki betra við en svo að þar sem hleyp á miklum hraða fyrir hornið á húsinu, þá kallar til mín kona, sem þarna var á göngu að karlinn fari öfugan hring, þ.e. komi á móti mér. Ég trúði konunni (man enn hver þetta var og hef oft hugsa henni þegjandi þörfina) og snéri við á punktinum og hljóp í hina áttina. Þá tók ekki betra við en svo að ég hljóp auðvitað beint í flasið á rabbabarakónginum, en hann hafði þá fengið konuna til þess að ganga í lið með sér og ljúga að mér, barninu. Nú ég var handsömuð og hrist til og karlinn hrifsaði þessa tvo rabbabaraleggi sem ég hélt dauðahaldi í til sín. Síðan hélt hann yfir mér mikla skammarræðu þar sem mér voru ekki vandaðar kveðjurnar. Hann sagði að ég væri þjófóttur krakki sem væri stórhættuleg samfélaginu á Króknum og ynni því allt hið versta, ég væri manneskja sem þyrfti að losa sig við og hann myndi sjá til þess að lögreglan næði í mig og sendi eitthvað í burtu. Svo sleppti hann mér og ég lippaðist niður og hljóp heim, hef þá sennileg sett héraðsmet í spretthlaupi. Afleiðingar alls þessa voru þær að ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja nokkrum heima frá þessu ævintýri mínu og hélt mig að mestu innan dyra það sem eftir lifði sumri. Ég held ég hafi verið orðin fullorðin þegar ég sagði mömmu loks frá þessari uppákomu. Ég var svo auðvitað alveg logandi hrædd við þennan rabbabarakarl fram eftir öllum aldri og fór ávallt í skjól í mörg ár á eftir ef ég sá hann á förnum vegi.
Spurning Völu Friðriks……………….. Hvað varð um sameiginlega frímerkjasafnið okkar?
Svar………… Já frímerkjasafnið, geri ráð fyrir að það sé í vörslu yfirlögregluþjónsins á Sauðárkróki, en hann fékk í arf eftir mína barnæsku flest allt af slíku dót, þó ekki Barbie.
Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?
Nafn…………. Guðríði Ólafsdóttur (dóttur Ástu og Ólafs læknis)
Sem sumarstarfsmenn í gamla Búnaðarbankanum upplifðum við það að kaffitímanum var skipt upp eftir kynjum.... Komdu með eina góða kenningu sem gæti útskýrt af hverju?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.