Zepparnir eru líka alltaf æði / ÞÓRÓLFUR STEFÁNS
Þórólfur Stefánsson er brottfluttur Skagfirðingur sem nú býr í Jönköping í Svíþjóð og kennir þarlendum gítarslátt. Hann fæddist árið 1961 og ólst upp á Öldustíg 3 á Sauðárkróki og svo náttúrlega í sveitinni hjá afa og ömmu. Þórólfur fékk snemma áhuga á gítarleik og lék í nokkrum hljómsveitum áður en hann flutti búferlum til sænskra frænda vorra. En nú er komið að hinum árlegu V.S.O.T. tónleikum í Bifröst sem fyrst voru settir upp fyrir gamla kunningja sem langaði að djamma eina kvöldstund með Þórólfi. Það verður engin undantekning þetta árið og verða tónleikarnir haldnir nk. laugardagskvöld og er liður í Lummudögum.
Helstu tónlistarafrek? Eru að eigin mati að hafa haldið 90 mín. langa klassíska gítartónleika í Hvammskirkju í Laxárdal á sama tíma og ísbirnir voru á vappi á Skaganum og sloppið lifandi. Kirkjan var troðfull af Skagabændum og öðru góðu fólki. Svo hef ég spilað alveg fullt við allskonar aðstæður en er alltaf stoltur yfir því að hafa fengið að frumflytja gítarverkið "Dulcinea" f. gítar og strengjasveit e. Þorkel Sigurbjörnsson í Dómkirkjunni í Linköping.
Uppáhalds tónlistartímabil? Er líklega árin uppúr 67...til 72, annars hefur alltaf verið fullt af góðri tónlist á öllum tímabilum, að mínu mati.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Gítarleikararnir Vicente Amigo og Gerardo Nunez og grúppan Quadro Nuevo. Zepparnir eru líka alltaf æði.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Ragga Bjarna, Ellý Vilhjálms, Óskalög sjúklinga, Karlakóra og einsöngslög... (mamma söng rosalega mikið við heimilisstörfin).
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Bítlarnir, lítil LP, Love me do, keypt í Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur í skólaferðalaginu með 6. bekk til Reykjavíkur árið 1972.
Hvaða græjur varstu þá með? Þá voru allir með Dual Stereo græjur – sem ég tengdi fyrsta rafgítarinn minn í seinna meir og sprengdi í tætlur, og útvarpið heima líka.
Hvað syngur þú helst í sturtunni? „..Yfir löööönd , yfir hööööf....hvert sem liiiigja mín spor......“
Wham! eða Duran? NEI TAKK!!
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? UHHHHHHHHH YEAH...........= Led Zeppelin
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Pedro Almodóvar - Hable con ella
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég færi nokkur ár afturábak í tímann með Skafta bróður á tónleikana með Led Zeppelin í Royal Albert hall 9. jan 1970
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Enginn...bara þá mig sjálfan :D
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? LED ZEPPELIN I, II, III og IV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.