Vilhjálmur hafði betur í slagnum við Þórarin um formannssæti SGS
Í morgun var kosið um nýjan formann Starfsgreinasambands Íslands á þingi sambandsins sem nú fer fram á Akureyri. Valið stóð milli tveggja frambjóðenda; Þórarins G. Sverrisson, formanns Öldunnar stéttarfélags í Skagafirði annars vegar, og Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness hins vegar. Fór svo að Vilhjálmur hafði nauman sigur, hlaut 70 atkvæði en Þórarinn 60 en kjörsókn var 93%, 130 greiddu atkvæði af 135.
Í frétt á mbl.is er haft eftir Vilhjálmi að hann hafi jafnvel átt von á því að munurinn yrði enn minni milli hans og Þórarins. Í fréttinni segir: „Spurður hvað hann hyggst leggja áherslu á sem formaður SGS segir hann sambandið vera það stærsta innan ASÍ með 72 þúsund félagsmenn á bak við sig. Helsta verkefnið liggi í því að tryggja að lágmarkslaun á Íslandi dugi fyrir nauðþurftum og að fólk geti haldið mannlegri reisn. „Því miður þá er því eigi til að dreifa í dag og það er í mínum huga, Samtökum atvinnulífsins, okkur í verkalýðshreyfingunni og í raun og veru samfélaginu öllu til skammar að svo sé og það er verkefni sem við þurfum að einblína á,“ segir hann.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.