Raðhúsið nýja á Blönduósi til sýnis á föstudaginn

Á Blönduósi er nú risið vandað sex íbúða viðhaldslétt raðhús við Flúðabakka 5, (63-98 m2), sérhannað fyrir eldri borgara. Framkvæmdaaðilar eru vel sáttir með hvernig til hefur tekist og nú er komið að því að sýna áhugasömum íbúðirnar því það verður opið hús nk. föstudag 28. febrúar milli 14-16 að Flúðabakka 5 og söluferlið því að hefjast.
Að byggingunni standa m.a. Hermann Arason, Sigurður Ágústsson og Kristján Blöndal, allir Húnvetningar, en tveir þeir fyrrnefndu búa á höfuðborgarsvæðinu. Hermann Arason er framkvæmdastjóri og eigandi verktakafyrirtækisins Nýmóta ehf. en Sigurður Ágústsson er framkvæmdastjóri hjá PLAY.
„Af hverju eru Hermann og Siggi að vasast í að byggja íbúðir fyrir eldri borgara á sínum æskuslóðum?“ segir Siggi og heldur áfram: „Við Hemmi vorum einhvern tíma að ræða að það væri gaman að sjá þá jákvæðu umfjöllun og þróun sem hefur orðið á svæðinu undanfarin misseri, ekki síst fyrir tilstilli Reynis Grétarssonar. Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til, og það allt. Okkur langaði að leggja okkar að mörkum og vissum að það væri mikil vöntun á sérhönnuðum íbúðum fyrir þennan aldurshóp á svæðinu – þar sem fólk gæti minnkað við sig húsnæði, og flutt í nýtt, viðhaldsfrítt og sérhannað húsnæði fyrir þennan aldurshóp. Það myndi svo auka framboð stærra fjölskylduhúsnæðis á svæðinu svo að allir hefðu hag af þessu.“
Ánægðir með að geta boðið hagstætt verð
Hermann er framkvæmdastjóri Nýmóta sem er mjög stór. byggingaverktaki á höfuðborgarsvæðinu og segir Siggi upplagt að nota áratugaþekkingu hans á þeim iðnaði. „Við fengum svo í lið með okkur mikla fagmenn í þetta verkefni, Kristján Blöndal og Birkir Rúnar í Neglunni Byggingafélagi. Við lögðum svo á það mikla áherslu að kaupa sem allra mesta þjónustu af heimamönnum – af Norðvesturlandi.
Siggi segir það vera áskorun að takast á við svonv verkefni. „Byggingakostnaður er mjög hár, byggingareglugerð fullflókin og því miður er t.d. fasteignaverð á mínum æskustöðvum með því lægsta sem þekkist á landinu. Við erum að sjá að meðaltalsfermetraverð nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu er um og yfir 900.000 pr m2. Við erum því mjög stoltir af því að geta boðið svona vandaðar eignir á undir 600.000 pr m2 (stærri eignirnar) á þessu markaðssvæði. Reyndar sjáum við merki þess að fasteignaeigendur af suðvesturhorni landsins sjá að þeir geta selt sínar eignir þar, keypt af okkur og átt umtalsverðan afgang. Svona er nú hallinn í fasteignaverðum í dag.
Algild hönnun og nýtt concept
Hann segir þá félaga hafa lagt mikla áherslu á hönnun, gæði og útfærslu. Íbúðirnar eru bjartar með góðri lofthæð en mikil áhersla er lögð á náttúrulega birtu og góð loftgæði.
Húsið er hannað á grundvelli algildrar hönnunar, sem þýðir að auðvelt er að aðlaga íbúðirnar ef aðstæður breytast hjá íbúum. „Ef einhver íbúa þarf að nota hjólastól, þá er allt aðgengi þannig að ekki þarf að breyta. Þarna á fólk að geta verið eins lengi og það lystir,“ segir Siggi.
Íbúðirnar eru hannaðar af Stáss arkitektum. Valin voru viðhaldslítil en endingargóð byggingarefni sem þola íslenskar aðstæður vel, hver íbúð er búin vönduðum innréttingum frá HTH ásamt heimilistækjum af gerðinni AEG. Bílaplan er malbikað og hverri eign fylgir sólpallur úr gagnvarinni furu. Innan lóðar er snjóbræðsla á helstu gönguleiðum og að hverri íbúð. Íbúðir eru afhentar með innréttingum, heimilistækjum og gólfefni (lykilafhending).
Aðspurður hvort þeir hyggi á frekari framkvæmdir svarar hann: „Já, og í rauninni á Norðvesturlandi – þetta er, má segja, nýtt concept.“
Þá er bara að kíkja í heimsókn að Flúðabakka 5 á föstudaginn og meðtaka herlegheitin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.