Vel ríðandi heimasætur
Það er gaman að segja frá því að á sýninguna Tekið til kostanna sem haldin verður í Reiðhöllinni Svaðastaðir á morgun munu heimasæturnar á Dýrfinnustöðum þær Ingunn og Björg mæta sérdeilis vel ríðandi. Reiðskjótar þeirra eru gæðingarnir og hestagullin Hágangur frá Narfastöðum og Gustur frá Hóli sem er í feikna formi.
Það er greinilegt að Gustur fær gott atlot hjá Ingólfi bónda á Dýrfinnustöðum því klárinn lítur glæsilega út og er unun að sjá hann dansa um með miklum hreyfingum hjá Ingunni, dóttur Ingólfs.
Dagskrá sýningarinnar er nú fullmótuð og stefnir í skemmtilega og flotta sýningu. Í fyrsta sinn í heiminum verður riðin munsturreið á fljúgandi skeiði en það eru knáir skeiðreiðarmenn úr Skagafirði undir stjórn Elvars E. Einarssonar sem þar sýna. Börn og unglingar úr vetrarstarfi hestamannafélagana í Skagafirði munu sýna flott munsturatriði einnig verða nemendur frá Hólaskóla með glæsileg munsturatriði. Ekki má gleyma hinum stórglæsilegu húnvetnsku Dívum sem koma með enn eitt glæsiatriðið eins og þeim er einum lagið.
Sýningin byrjar kl: 20:30 á laugardagskvöldið í reiðhöllinni Svaðastaðir. Forsala miða er í reiðhöllinni og kostar miðinn 2500.- krónur.
Dagskrá Tekið til kostanna má sjá á svadastadir.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.