Varp hafið

Á vef Náttúrustofu Norðurlands vestra segir að það hafi sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum undanfarna daga að sumarið er komið. Hitamælirinn sýnir rautt, grasið er byrjað að grænka, hunangsflugurnar eru komnar á kreik og fuglasöngur ómar frá morgni til kvölds. Starfsmaður náttúrustofunar hefur verið víða á ferðinni undanfarnar vikur við helsingja­talninga en talið er á ca 5 daga fresti í innanverðum Skagafirði og í Hjaltadalnum. Hefur hann því haft gott tækifæri til að skoða þær breytingar sem orðið hafa á fuglalífi svæðisins að undanförnu.

Heiðlóum og stelkum hefur farið ört fjölgandi seinnustu daga auk þess sem víða heyrist í hneggjandi hrossagaukum. Hópar af jaðrakönum hafa jafnframt sést víða.

Fyrstu álftirnar eru lagstar á og ættu ungar úr þeim hreiðrum að líta dagsins ljós um mánaðarmótin maí/júní. Rjúpnakarrar eru komnir á varpstöðvar sínar og farnir að verja óðöl sín af hörku. Eru þeir vel sýnilegir þessa dagana, snemma á morgnana og á kvöldin, þar sem þeir hafa komið sér fyrir á girðinga­staurum og öðrum stöðum þar sem útsýnið er gott svo þeir hafi góða yfirsýn yfir sín svæði. Skera þeir sig vel úr landslaginu enda enn í hvítum vetrarbúningi.

Heiðargæsir og grágæsir eru enn víða á túnum  en fer fækkandi. Helsingjum fjölgaði jafnt og þétt eftir því sem leið á aprílmánuðinn en þann 2. maí sáust 18.621 fuglar. Næstu daga kemur þeim til með að fækka ört og ættu flestir fuglarnir að hafa yfirgefið landið um miðjan maí.

Krían er komin til landsins og er hún farin dreifast um landið. Er hún meðal annars komin í Eyjafjörðinn en við á náttúrustofuni höfum en engar fréttir fengið af henni hér í Skagafirði og Húnavatnssýslunum. Væri gaman að fá fréttir af komutíma hennar hingað á norðurlandi vestra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir