Vara við fyrningaleið
Sveitastjórn Skagastrandar varar við áforum um að fyrna aflaheimildir útgerða enda gæti sú aðgerð stefnt atvinnuöryggi og velferð íbúa Skagastrandar í mikla óvissu.
Í ályktun sveitastjórnar segir að sjávarútvegur sé ein undirstaða atvinnurekstrar á Skagaströnd. Áríðandi sé að halda aflaheimildum í byggðarlaginu og standa vörð um störf. Í ályktuninni segir orðrétt; -Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir víðtækum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem munu hafa áhrif á afkomu þeirra sem starfa við sjávarútveginn. Sveitarstjórn varar við áformum um að fyrna aflaheimildir útgerða sem stefnir atvinnuöryggi og velferð íbúa Skagastrandar í mikla óvissu. Nauðsynlegt er að skapa vinnufrið um sjávarútveg með því að ná sátt um stjórn fiskveiða. Allar breytingar á fiskveiðistjórnun ber að gera með varúð og í samráði við hagsmunaaðila. Óvissa og ílla ígrundaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu hafa strax neikvæð áhrif á samfélagið og gera má ráð fyrir að fyrirtæki muni halda að sér höndum varðandi uppbyggingu, viðhald og þróun rekstrar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.